149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Við búum öll á Íslandi og erum Íslendingar, en svo erum við Kópavogsbúar og Hafnfirðingar og það er þráður af Húnvetningi í okkur öllum og ansi margir hafa verið frá Siglufirði í gegnum tíðina. Við kennum okkur svolítið við sveitarfélögin sem við komum frá, svæðin sem við komum frá.

Þá veltum við fyrir okkur: Hvernig getum við styrkt heimavöllinn? Hvernig getum við styrkt sveitarstjórnarstigið? Því er til að svara að það gerist auðvitað fyrst og fremst með uppbyggingu innviða. Það gerist með því að skapa sveitarfélögunum tækifæri til þess að búa til búsetuskilyrði sem jafnast á við það sem er hægt að gera um allt land. Jöfn búsetuskilyrði, skilyrði til verðmætasköpunar, atvinnusköpunar. Það er auðvitað grunnurinn að þessu öllu. Ef það er ekki í lagi þá getum við rætt alls konar lausnir. En það er verðmætasköpun, atvinna, búsetuskilyrði, sem ráða þessu. Þá koma skólarnir. Þá kemur þjónustan og þá koma sameiningarnar. Um leið og þetta er í lagi, og það hefur sýnt sig að þar sem þetta er í lagi, er slík þróun í gangi.

Við þurfum að skapa þessi tækifæri. Vegna hvers? Vegna þess að atvinnulíf til sjávar og sveita hefur breyst mikið á undanförnum árum og það mun breytast mikið á næstu árum. Þeir grunnatvinnuvegir og sú grunnverðmætasköpun sem hefur verið á landsbyggðinni verður ekki sú sama. Fólki fækkar stöðugt. Miklu færri hendur búa til miklu meiri verðmæti. Við þurfum að skapa tækifæri fyrir nýja verðmætasköpun, öðruvísi tækifæri. Laxeldi þar sem það á við, gagnaver þar sem það á við. Við þurfum að geta útvegað vegakerfi og dreifikerfi raforku þarf að vera í lagi. Þá eflum við sveitarstjórnarstigið. Þá getur það tekið við fleiri verkefnum.

Það er áhyggjuefni í mínum huga hversu mikil tilhneiging hefur verið hjá hinu opinbera að taka til sín verkefni sem eiga heima á sveitarstjórnarstiginu.(Forseti hringir.) Eitt mál var hér rætt í vor sem er mjög áberandi fyrir þetta, (Forseti hringir.) skipulag haf og stranda. Þær hugmyndir sem komu fyrst frá ríkisvaldinu í þeim efnum voru að taka það algjörlega af sveitarfélögunum. Ég held (Forseti hringir.) að við getum horft í hina áttina og við eigum að efla sveitarstjórnarstigið.