149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:51]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka málshefjanda, hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu um sveitarstjórnarstigið. Það er yfirleitt farsælast að þjónusta við íbúana sé sem næst þeim og að ákvarðanatakan fari fram í nærsamfélaginu. Sveitarfélög eru betur til þess fallin að veita nærþjónustu en ríkið. Fleiri verkefni munu efla sveitarstjórnarstigið og atvinnulífið um allt land.

Mörg góð skref hafa verið tekin í því að færa verkefni frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna. Vandinn hefur hins vegar verið sá í gegnum tíðina að sjaldnast hefur nægilegt fjármagn fylgt verkefnunum. Þrátt fyrir að í dag séu flestir sammála um að grunnskólarnir eigi að vera á ábyrgð sveitarfélaganna munum við sem störfuðum í skólunum þegar þeir voru færðir frá ríkinu að sú breyting gekk ekki átakalaust fyrir sig. Mörg sveitarfélög áttu í erfiðleikum með að halda úti skólastarfi.

Þegar málefni fatlaðs fólks voru færð frá ríki yfir til sveitarfélaga voru mörg minni sveitarfélögin áhyggjufull yfir því að málaflokkurinn yrði þeim of dýr og að ekki fylgdi nægilegt fjármagn verkefnunum. Það hefur sannarlega síðan komið á daginn.

Almennt telur sveitarstjórnarfólk, einkum í minni sveitarfélögum, að sá tilflutningur hafi ekki styrkt sveitarstjórnarstigið.

Það kemur fram í skýrslunni að sveitarstjórnarfólk sé almennt þeirrar skoðunar að færa eigi fleiri verkefni til sveitarfélaganna en vegna fyrri reynslu óttast það framkvæmdina. Þar vegur þyngst flutningurinn á málefnum fatlaðs fólks sem margir telja að hafi ekki lukkast nægilega vel. Það þarf að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að tryggja fjármagn til slíkra verkefna.