149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:53]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, ráðherra og öðrum þátttakendum fyrir þessa mikilvægu umræðu. Við erum í raun og sanni að fjalla um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og í því samhengi hvernig sveitarfélögum eru tryggðir nægilegir tekjustofnar til að standa undir þessum verkefnum.

Það er mikilvægt áður en hugað er að því að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaganna, eins og ráðherra gat um, hann nefndi öldrunarþjónustu og framhaldsskóla, að farið sé mjög rækilega yfir þá verkaskiptingu sem liggur fyrir og hvernig komið hefur verið til móts við sveitarfélögin til að geta sómasamlega og nógsamlega rækt skyldur sínar í þessum efnum.

Í fjárlaganefnd finnur maður glögglega fyrir því hversu miklar áhyggjur sveitarstjórnarmenn hafa af þessum þáttum. Ég nefni dæmi: Á Suðurnesjum hefur orðið mikil fólksfjölgun sem er kannski fordæmalaus og óþekkt og þar gerist það án þess að stofnunum ríkisins á svæðinu séu tryggðar nægilegar tekjur, hvað þá stofnunum sem eru reknar af hálfu sveitarfélaganna. Í Reykjavík er lýst miklum áhyggjum. Reykjavík hefur með höndum mikla velferðarþjónustu, til að mynda á sviði málefna fatlaðra. Með mjög sannfærandi hætti var lýst fyrir okkur í fjárlaganefnd hversu vanhaldin borgin er í þessum efnum. Það er talað um að frá því að þessi málaflokkur var fluttur (Forseti hringir.) sé halli upp á ríflega 6 milljarða kr.

Margt mætti fleira um þetta segja. Það þarf að fara yfir tekjustofnana og taka fyrir að hér sé lagður á fasteignaskattur og hann hækkaður án þess að nokkur lýðræðislega kjörinn maður hafi komið að þeirri skattahækkun.