149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:59]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra á ný og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Eins og fram hefur komið er ekki einfalt mál að styrkja sveitarstjórnarstigið en það er vel hægt. Ég fagna því að heyra áhuga hæstv. ráðherra og hv. þingmanna á að það verði gert.

Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu þarf að skoða fjármögnun sveitarstjórnarstigsins. Vil ég af því tilefni vekja athygli á annarri áhugaverðri skýrslu sem einnig kom út í fyrra sem er áfangaskýrsla nefndar um endurskoðun á jöfnunarframlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þar er einmitt tekið á og lagt til að sveitarfélög geti ekki fengið úr jöfnunarsjóði nema þau fullnýti tekjustofna sína. Þar kemur líka fram að sum sveitarfélög fá næstum helming af tekjum sínum úr jöfnunarsjóði sem þýðir að þau eru ekki sjálfbær með eigin rekstur.

Boltinn varðandi þá skýrslu er hjá hæstv. ráðherra og væri áhugavert að heyra hvað hann hyggst gera með tillögur þeirrar nefndar líka.

Við gleymum því kannski stundum en sveitarstjórnirnar eru hitt stjórnsýslustigið á Íslandi. Það skiptir máli fyrir íbúana, fyrir okkur öll, að sveitarstjórnum sé gert kleift að sinna verkefnum sínum og reka sig á sómasamlegan hátt. Allt of mikill tími fer í rekstrarmál og viðbragð og of lítill tími er afgangs til að horfa til framtíðar og til uppbyggingar. Við hljótum að vilja vinna að því að sveitarfélögin geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum gagnvart íbúum sómasamlega og byggt upp sveitarfélög sín til framtíðar.

Til að það sé hægt er ljóst að bregðast þarf við og efla og styrkja sveitarstjórnarstigið á fjölbreytta vegu og þar liggur ábyrgðin hjá okkur.