149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:04]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í almennu tali hafa þessi lög stundum verið nefnd vinnuverndarlögin og mun ég nýta mér það í máli mínu hér eftir.

Meðan á samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð hefur staðið hefur jafnframt verið í gildi ákvæði til bráðabirgða í vinnuverndarlögum. Þar hefur verið kveðið á um að með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli verkefnisins.

Gildistími þessa ákvæðis rann út þegar lögin um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir tóku gild 1. október sl. og er því ekki lengur unnt að semja um frávik frá vinnutímareglum vinnuverndarlaga. Til þess að tryggja markmið laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nái fram að ganga þykir nauðsynlegt að áfram sé í vinnuverndarlögum heimild til að semja um rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir vegna þeirra starfsmanna sem veita þjónustu á grundvelli laganna.

Ástæðan er sú að samkvæmt lögum er talið nauðsynlegt, í það minnsta að unnt sé í tilteknum tilvikum að skipuleggja þjónustu á þann hátt að ætla megi að vinnutími starfsmanna rúmist ekki innan almennra vinnutímareglna. Er því í frumvarpi þessu lagt til að áfram verði unnt að semja um rýmri tíma til þessara tilteknu starfsmanna, hér eftir sem hingað til. Er mikilvægt að árétta að það hefur verið með þeim hætti.

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að það er þeim sem hér stendur ekki ljúft að standa hér og mæla fyrir frumvarpi sem heimilar að gerð séu slík frávik frá vinnutímareglum sem litið er á sem lágmarksréttindi á vinnumarkaði. Ég hef boðað hér á Alþingi að við ætlum að taka félagsleg undirboð á vinnumarkaði föstum tökum og er ég því í mjög sérstakri stöðu að mæla fyrir frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir að tilteknar tilslakanir verði heimilaðar þegar kemur að lögbundnum hvíldartíma hjá þröngum hópi þátttakenda á vinnumarkaði.

Við vinnslu frumvarpsins var óskað sérstaklega eftir umsögn frá samtökum aðila vinnumarkaðarins sem og frá Vinnueftirliti ríkisins sem fer með framkvæmd vinnuverndarlaga. Það er skemmst frá því að segja að Vinnueftirlit ríkisins, ASÍ, BHM, BSRB, leggjast í raun gegn því að þetta frumvarp verði að lögum þar sem ekki séu til staðar veigamikil rök fyrir því að víkja með þessum hætti frá réttindum.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur hins vegar fram að sambandið styðji efni frumvarpsins. Vekur sambandið jafnframt athygli á því að verði ekki gert ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar vinnutíma umræddra starfsmanna geti það aukið líkur á að notendastýrð persónuleg aðstoð verði að einhverju leyti að svartri atvinnustarfsemi þar sem framkvæmdin fari á svig við efni þeirra skriflegu samninga sem gerðir eru.

Eftir að hafa farið vel yfir þessi ólíku sjónarmið sem komið hafa fram við vinnslu frumvarpsins hef ég vissan skilning á afstöðu þessara aðila og ekki síst verkalýðshreyfingarinnar. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt að framlengja að svo stöddu heimildina til að semja um rýmri vinnutíma í þessum tilteknu tilvikum svo áfram unnt sé að veita umrædda þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eins og verið hefur á meðan á tilraunaverkefninu hefur staðið.

Að mínu mati er mikilvægt að þessi tími verði nýttur til að greina þjónustuna og finna leiðir til að skipuleggja hana þannig að hún rúmist innan laga og reglna. Þess vegna tel ég þann kost í stöðunni skástan að leggja til að enn um sinn verði miðað við heimild til frávika í ákvæði til bráðabirgða í stað þess að leggja til efnisbreytingar á þeim ákvæðum laganna sem um ræðir. Þannig að um er að ræða framlengingu á bráðabirgðaheimildum.

Þá hef ég þegar óskað eftir tilnefningum frá samtökum aðila vinnumarkaðar, Vinnueftirlitinu, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, um fulltrúa í nefnd sem ég hef ákveðið að skipa í þessu sambandi. Hún mun hafa það hlutverk að fylgjast með hvort réttindi þeirra starfsmanna sem starfa munu við framkvæmd þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir séu virt, svo sem hvað varðar vinnutíma, veikindaleyfi, orlof og vinnuaðstæður.

Ég mun enn fremur óska eftir því að þessi nefnd komi með tillögur um breytingar á skipulagi þjónustunnar, þannig að hún rúmist innan ramma vinnuverndarlaganna og eftir atvikum á lögum eða reglugerðum, gerist þess þörf. Af því er varðar réttindi og starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem hér um ræðir og til að bæta aðeins við þá hefur okkur Íslendingum oft gefist vel að horfa til nágrannalandanna, Norðurlanda, þegar við erum að horfa til löggjafar, m.a. á þessu sviði eins og öðrum. Það er mjög erfitt að fá upplýsingar um það með hvaða hætti þetta er leyst í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og það virðist vera í þessum löndum að þar horfi menn í gegnum fingur sér og þar séu vinnuverndarlög einnig brotin. Þannig við Íslendingar þurfum að finna upp hjólið í þessu og það er það sem verður að gerast á næstu árum.

Við megum alls ekki feta þá braut að fólk sem starfar á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, starfi við lakari aðbúnað en aðrir þátttakendur á vinnumarkaði. Ég tel afar mikilvægt að Alþingi taki höndum saman til þess að koma í veg fyrir að svo verði og hef því ákveðið að leggja fram þetta frumvarp, þrátt fyrir andstöðu m.a. verkalýðshreyfingarinnar. Með því vonast ég til að við getum í sameiningu fundið lausn til framtíðar litið þar sem gætt verði sjónarmiða þeirra sem nýta sér umrædda þjónustu sem og þeirra sem veita þjónustuna. Aukin réttur eins má ekki og á ekki að rýra rétt annars til frambúðar.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.