149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:12]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er ákveðin klemma í þessu máli. Sú þjónusta sem við höfum ákveðið að veita — við erum ekki búin að móta með hvaða hætti við getum leyst það til framtíðar hvernig skipulagi vinnunnar verður háttað. Ég bendi á að í rauninni er þessi heimild ekki að renna út núna. Hún rann út 1. október sl. þannig að það sem af er þessum mánuði hefur engin regla verið í gildi hvað þetta snertir og í raun er þar um ólöglega starfsemi að ræða. Það er því gríðarlega mikilvægt að þetta mál komi inn í þingið. Það er þess vegna sem það kemur hingað í stað þess að láta þetta óátalið. Síðan þurfum við að vinna það hratt og vel. Þess vegna er lagt til að þetta verði bráðabirgðaákvæði en ekki framtíðarúrræði í lögunum og svo þurfum við að skoða með hvaða hætti þetta verður leyst til frambúðar.

Það er mjög sérstakt starf að sinna notendastýrðri persónulegri aðstoð. Því er ekki hægt að líkja við neitt annað starf á vinnumarkaði. Við þurfum að horfa til þess hvernig við getum búið um þá starfsmenn sem sinna þessari vinnu. Þar verðum við að sjálfsögðu líka að horfa áherslna sem núna eru varðandi styttingu vinnuvikunnar og aðra þá þætti sem eru til umræðu í tengslum við kjarasamninga. Ég vænti þess og legg áherslu á að nefndin sem taka á við boltanum núna og hafa eftirlit með þessum þáttum hafi jafnframt það hlutverk að leita leiða til að sjá hvernig hægt er að skipuleggja vinnuumgjörð þeirra einstaklinga sem sinna notendastýrðri persónulegri aðstoð þannig að hún rúmist innan laga og reglna. Það á við um styttingu vinnuvikunnar eins og aðra þætti.