149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:16]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt eins og þingmaðurinn kemur inn á mun stytting vinnuvikunnar auðsjáanlega krefjast fleiri stöðugilda á hverju ári í öllum störfum þar sem krafist er sólarhringsþjónustu. Það gefur líka augaleið að það kostar meiri fjármuni. Þar sem fjármunir sem ætlaðir eru í þetta koma bæði frá ríki og sveitarfélögum má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því að sá aðili sem ber stærri hluta kostnaðarins, í þessu tilfelli sveitarfélagið, geri kröfu á hendur ríkinu um að fá aukið fjármagn til að sinna því verkefni. Það hefur hins vegar ekki komið til tals. En ég vænti þess að þegar menn fara að setjast yfir með hvaða hætti löggjöfin og skipulagið á að vera til frambúðar hvað þann þátt snertir að þau sjónarmið sem snúa að fjármagni og kostnaðarskiptingu muni koma upp af hálfu sveitarfélaganna. En ekki hefur verið tekin nein afstaða til þess vegna þess að málið er einfaldlega ekki komið inn á inn á borð velferðarráðuneytisins enn þá.