149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þ.e. þann þátt sem snýr sérstaklega að svokallaðri NPA-þjónustu.

Hv. þingmönnum er náttúrlega kunnugt um þá umræðu sem fór fram í tengslum við setningu laganna hér síðastliðið vor, þ.e. laganna um stuðning við fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og þingmönnum hv. velferðarnefndar er vafalítið kunnugt um þá umræðu sem fór fram þar inni um hvernig taka ætti á þessum þætti.

Sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli hafa legið fyrir. Hún lýsti því strax við gerð frumvarpsins að hún hefðu áhyggjur af þessum þætti, og skyldi engan undra. Vinnutímalöggjöfin og vinnuverndarlöggjöfin eru afrakstur áratugabaráttu verkalýðshreyfingarinnar. Þess vegna er ekki skrýtið að menn stígi þau skref ekki af léttúð sem gætu verið einhvers konar undanþágur eða breytingar til hins verra á þeim lögum. Því skil ég vel þá klemmu sem uppi er um að þurfa að stíga skref til þess að framlengja undanþáguna.

Þess vegna velti ég því fyrir mér, herra forseti, hvort ekki sé dálítið ríflegt að ætla að veita undanþáguna til rúmlega tveggja ára í þessu skrefi. Hvort ekki væri bragur á því að horfast í augu við þá staðreynd að við munum ekki ná að lenda einhverju samkomulagi, hvorki við verkalýðshreyfinguna né sveitarfélögin, akkúrat um það með hvaða hætti við ætlum að gera þetta til framtíðar á þeim tíma sem við höfum í raun ekki til að klára málið, því að undanþágan er í raun runnin út, en setja í staðinn á okkur ákveðna tímapressu, t.d. með því að hafa undanþáguna frekar til eins árs en tveggja.

Ég er viss um að það eru fleiri þingmenn með hálfgert óbragð í munni af því að þurfa með svona, fyrirgefðu orðbragðið, forseti, skítamixi að gera það mögulegt að halda mörgum hverjum þessum NPA-samningum áfram. Það er náttúrlega ekki nógu gott.

Ég held að við hv. þingmenn séum sammála um að NPA hafi verið gríðarlega mikil réttarbót fyrir fólk með fötlun. Ég trúi því alla vega að við höfum ekki áhuga á að stíga einhver skref til baka þar. En á sama hátt höfum við heldur ekki áhuga á að stíga skref til baka í vinnuverndarlöggjöfinni. Alveg klárlega ekki.

Nú er fyrirliggjandi að gerðir verða kjarasamningar á vinnumarkaði, kröfugerð verkalýðsfélaganna er komin fram. Þá er ekki sérlega gott að hefja þá vegferð á einhverri tveggja ára undanþágu eða rúmlega það, áður en farið er af stað.

Ég minni á samhengi við styttingu vinnuvikunnar sem ég nefndi hérna áðan. Það þarf líka að skoða. Það er ekki einfalt mál.

Hæstv. ráðherra kom inn á það sem rétt er, að í störfum sem krefjast beinlínis einhverrar viðveru muni það hafa kostnaðarauka í för með sér að stytta vinnuvikuna. Það er líklega rétt hjá hæstv. ráðherra í mjög mörgum tilfellum, en það er aftur líka samtal sem eiga má við verkalýðshreyfinguna.

Við höfum verið nokkuð föst í átta tíma vinnulotum þar sem við erum með það sem við köllum rúllandi vaktir. Á undanförnum árum hafa fleiri og fleiri stofnanir þreifað fyrir sér með vinnulotur sem eru frá fjórum og upp í sex tíma, eða milli fjögurra og átta tíma, margar hverjar með ágætisárangri. Kannski er það eitthvað sem ræða þarf í þessu samhengi og þarf kannski að ræða í samhenginu við styttingu vinnuvikunnar og hvort það sé heppilegasta formið að vera með vinnuloturnar sem eitthvert hlutfall af 40 eða af 36.

Ég segi fyrir mig: Ég mun hlusta á röksemdir verkalýðshreyfingarinnar. Ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd muni kalla verkalýðshreyfinguna fyrir nefndina og náttúrlega líka aðra aðila vinnumarkaðarins, að maður tali ekki um samtök fatlaðs fólks sjálfs Ég mun hlusta ítarlega og vel eftir þeim sjónarmiðum sem þar koma fram og síðan mun nefndin vonandi geta komist að samkomulagi um hvaða lendingu við fáum í þessu máli.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan: Það er ekki hægt að gera ekki neitt.