149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:28]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þetta mál hefur verið í velferðarnefnd í nokkurn tíma og við höfum rætt það nokkuð oft. Þetta er auðvitað afar sérstakt mál. Ég tek bara undir það sem hér hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra og hjá síðasta ræðumanni, að það eru auðvitað ekki auðveld spor að ganga inn í vinnulöggjöfina og vinnuverndina eins og þetta gerir sannarlega eftir áralanga baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir mannsæmandi vinnutíma.

Ég var að rifja það upp í huganum að fyrir nefndina á fyrri stigum þessa máls komu starfsmenn sem sinntu svona störfum, tveir a.m.k., og þeir gátu þess að þessi sérstaki vinnutími sem er auðvitað svolítið öðruvísi en margur annar, hentaði námsmönnum og fólki sem er við nám. Þetta eru mikið sofandi vaktir eins og kallað er. Fólk er til staðar allan sólarhringinn og mikil viðvera. Það er ekkert hægt að fara í burtu þegar gætt er að einstaklingi sem býr við slíka fötlun. Það kom einnig fram á fundi í velferðarnefnd hjá einum einstaklingi sem sinnti þessu starfi að honum fyndist best að fá að vera tvo sólarhringa í einu að störfum, vera með samfellu í heimilishaldi og viðveru með viðkomandi aðila, sagðist hafa fundið besta taktinn í því. Það er því auðvitað mjög misjafnt hvernig þetta er. Við erum að tala um mjög sérstaka vinnu, hún er öðruvísi en allt annað. Þegar við tölum um að stytta vinnuvikuna í 35 klukkustundir og út úr því komi aukin framleiðni þá á það auðvitað ekki við um vinnu eins og þessa af því að hún snýst fyrst og fremst um langa viðveru og að gæta að heilsu og heill þess sem unnið er með.

Verkalýðshreyfingin hefur sett sig upp á móti þessu og ég skil mjög vel þau sjónarmið, eins og fyrri ræðumaður kom rækilega inn á áðan. En við megum ekki vera í þannig kassa í öllum málum að það sé allt óumbreytanlegt sem er búið að ákveða. Samfélagið er að breytast. Fyrir áratugum þegar var verið að semja vinnulöggjöfina þá var svona þjónusta kannski ekki til.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af í þessu sambandi er að ef þessi sveigjanleiki verður ekki leyfður þá muni kostnaður við NPA-samninga aukast mjög verulega, sem verður þá til þess að samningum mun fækka. Þá mun þeim einstaklingum sem eiga möguleika á því að fá NPA-samning fækka vegna þess að kostnaðurinn við þá eykst svo mikið, kannski bara vegna þess að við erum ekki tilbúin til þess að sveigja vinnulöggjöfina að þessu leyti. Ég held að hún sé okkur öllum mikilvæg og við öll sem hér erum viljum standa vörð um hana og stöndum heils hugar með verkalýðshreyfingunni í því, en við megum ekki fara inn í svona kassa og loka okkur þar og getum ekki hreyft okkur út úr. Við verðum að geta séð í gegnum fingur okkur með einhver algjör undantekningartilfelli og verðum að geta gert breytingar.

Ég mun styðja það að fresturinn í þessum lögum verði til 31. desember 2020 og tek undir með fyrri ræðumanni um að nýta þann tíma vel þannig að við tryggjum þetta til framtíðar, þeim sem þurfa á þjónustunni að halda til heilla. Það er mikilvægt að það fáist fólk til þessara starfa, að fólk sækist eftir því að vilja sinna þeim sem er ekkert endilega víst að falli öllum. Það er mikilvægt að t.d. námsfólk, sem sér tækifæri þarna til að vinna með námi, verði áfram sá vinnukraftur sem við getum reitt okkur á í þessu vegna þess að það hefur ekki verið auðvelt að fá fólk í þessi störf. Ég þekki það. Með fleiri samningum þarf að gera þetta auðveldara.