149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Það er í sambandi við NPA. Þetta mál er mjög vandmeðfarið vegna þess að þetta er eiginlega vinnustaður sem ekki er hægt að lýsa, hann getur verið svo mismunandi. Það geta verið svo ótrúlegar aðstæður sem koma upp í þessu samhengi og þess vegna verðum við að sjá til þess að hlutirnir séu í lagi. Það sem ég óttast mest að við gleymum í þessu samhengi varðar t.d. aðgengi að hópferðabílum og öðru, eins og ég ræddi við hæstv. samgönguráðherra í morgun. Það er mál auðvitað sem skiptir líka máli fyrir vinnuaðstöðu umræddra einstaklinga. Á meðan hlutirnir eru í algeru lamasessi, á meðan við sjáum ekki til þess að sjálfsögð mannréttindi séu virt gagnvart fötluðu fólki og við ætlumst til þess að þeir sem verst eru staddir í þessu máli fái aðstoðarmenn — við hljótum að gera kröfu um að aðbúnaður og möguleikar aðstoðarmanna séu þannig að þeir þurfi ekki að leggja á sig gífurlega vinnu umfram það sem hægt er að krefjast af þeim. Það má ekki vera þannig að þeir geti ekki sinnt vinnu sinni vegna þess að hið opinbera sér ekki til þess að farið sé að lögum.

Ég heyrði nýlega að nýjustu rútur og hópferðabílar séu ekki með þann búnað sem þessar bifreiðar eiga að hafa samkvæmt lögum. Það virðist vera undir fötluðum og hreyfihömluðum einstaklingi komið að sjá til þess að svo sé, þá með kæru, í stað þess að þeir sjái til þess sem það eiga að gera, eins og Umferðarstofa og aðrir, að bifreiðarnar séu fullbúnar. Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, þetta er vinnustaður sem maður veit eiginlega ekki hvernig á að skilgreina.

Ráðherra kom inn á þessi mál áðan. Ég verð bara að segja að það fór léttur kuldahrollur niður hrygginn á mér þegar hæstv. ráðherra talaði um nefnd, vegna þess að þegar nefndir eru nefndar kemur upp í hugann orðatiltækið: Engar efndir, bara nefndir. Það verður bara að segjast eins og er að maður hefur alltaf á tilfinningunni að ef eitthvað er sett í nefnd eigi að svæfa það til að komast fram hjá hlutunum og því að taka tillit til þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda.

Í þessu tilfelli verðum við að vanda okkur. Við verðum að skoða þetta mál gaumgæfilega þegar það fer fyrir nefnd. Ég vona heitt og innilega að við getum gengið frá því þannig að allir gangi sáttir frá borði og sérstaklega þeir sem þurfa að nota þetta og líka aðstoðarfólkið, vegna þess að það verður líka að vera ánægt. Ég sé fram á að það gæti orðið svolítið erfitt að fá fólk í þessa vinnu ef vinnuumhverfið er þannig að það eru endalausar hindranir í veginum. Þá eru mjög litlar líkur á að þetta virki eins og við ætlumst til.