149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:37]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hér ræðum við frumvarp þar sem við erum, eins og búið er að nefna hérna, í dálítið erfiðri stöðu. Víkja á frá réttindum starfsmanna, sem er mjög vont, en áhrifin á notendur NPA eru mögulega enn verri af því að þeir voru í verri stöðu til að byrja með.

Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni um að það þurfi að flýta þessu. Ég velti fyrir mér, og það er nokkuð sem við munum líklega skoða í velferðarnefnd, hvort gildistíminn eigi að vera í eitt ár en frekar tvö bara til að flýta fyrir, því að þetta er vond staða sem við viljum ekki að sé uppi. Nú er NPA búið að vera til reynslu síðan 2012 eða 2013 alla vega, það er búið að vera til reynslu í nokkur ár. Af hverju er ekki búið að finna lausn á þessu máli? Ég skil ekki alveg af hverju alltaf er verið að grípa til aðgerða á síðustu stundu. Við erum búin að hafa rúman tíma og ættum að hafa séð fyrir að þetta yrði vandamál. Við ættum að vera búin að finna lausn á þessu máli. En þar sem ekki er búið að gera það þarf að flýta þessu. Við verðum að gera það.

Við eigum eftir að fá gesti fyrir nefndina og eigum eftir að skoða þetta vel í nefndinni. Mögulega gæti niðurstaðan orðið sú að það þurfi að flýta þessu mun meira en að miða við tvö ár.