149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[15:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur verið fróðlegt að velta því fyrir sér hvaða aðstæður voru uppi þarna fyrir tæpum 100 árum. Ég þekki ekki nákvæmlega svarið en ætli ég leyfi mér ekki að geta mér til um að það kunni að hafa verið uppi sjónarmið um að það væri ábyrgðarhluti að taka á herðar ríkissjóðs lengri skuldbindingar en þessar, að binda menn um þetta langan tíma. Þá er kannski til þess að líta að markaðir fyrir skuldabréfaútgáfu eru í dag auðvitað miklu dýpri og fjölbreyttari og þroskaðri og ég held að það megi fullyrða að því verði ekki jafnað saman hvað markaðurinn getur boðið upp á miklu betri valkosti í dag og fjölþættari en var og hvað markaðurinn er miklu dýpri, þó ekki væri nema bara litið til innanlandsmarkaðar og hverjir gætu verið viðtakendur, kaupendur að slíkum bréfum o.s.frv.

Meginhugsunin er að afnema þakið og það felur í sér að hægt verður að taka ríkisskuldabréfaútgáfur sem eru mun lengri, jafnvel til heillar aldar eins og hv. þingmaður nefndi, eins og einhver dæmi eru um. Það þykir mér afar ólíklegt að muni geta gerst í framtíðinni eða að menn stefni að slíkri útgáfu.