149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[15:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra mælir hér fyrir lagafrumvarpi sem lýtur að því að fella úr gildi önnur lög og ég ætla bara að leyfa mér að hafa það sem fyrstu viðbrögð mín að fagna ávallt slíku.

Það segir hér um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar, að fella þessi lög ur gildi, að önnur lög hafi í raun leyst þau af hólmi og þá er vísað til laga um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs, nr. 79/1983, og lög um lánasýslu ríkisins, nr. 43/1990. Nú eru þessi tvenn lög ekki mjög ný af nálinni og því velti ég fyrir mér hvort það hefði verið ástæða til að fella þau ágætu lög sem hér um ræðir, nr. 51/1924, fyrr úr gildi en nú er.

Svo þætti mér líka vænt um að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann hafi í hyggju að leggja fram fleiri frumvörp sem lúta að ákveðinni tiltekt í lagasafninu ef svo mætti að orði komast.