149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[16:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Með frumvarpinu, verði það að lögum, er verið að gefa ríkissjóði tækifæri til að skuldbinda þjóðina lengra fram í tímann en 25 ár. Það eru örugglega einhverjir sem myndu segja að varhugavert væri að hafa jafn opna heimild og stefnt er að. Sá sem hér stendur er í þeim hópi.

Með því er ríkið þá komið með heimild, eins og kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra, til að gefa út 100 ára skuldabréf sem færist fram á þarnæstu kynslóðir. Mér skilst að heimilt sé orðið að gefa svona skuldabréf út í Bandaríkjunum, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni. En spurningin er hvort með þeirri breytingu sé kominn opinn tékki, sem er eitthvað sem þarf að ræða, sem komandi kynslóðir þurfa síðan að borga. Það er að mínum dómi varhugavert og ég kem nánar inn á það á eftir.

Í því sambandi, verði það raunin, er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að bréfin séu óverðtryggð. Ef um væri að ræða verðtryggð bréf liti málið allt öðruvísi út. Verðbólga myndi bætast við höfuðstól sem væri svo borgaður smám saman niður.

Reyndar eru viðskiptin nokkuð virk á eftirmarkaði á ríkisbréfum, einnig lengri bréfum, þannig seljanleikaálag ætti ekki að vera mikið. En það er áhugavert að sjá hversu mikil velta er á slíkum bréfum. Ég skil samt ekki alveg hvers vegna lífeyrissjóðirnir eru að velta því svona mikið á milli sín, jafnvel þó að kostnaður sé lítill, því að það er alltaf óbeinn kostnaður af kaup- og sölutilboðum. Auk þess eru, held ég, bankar með viðskiptavakt á þeim bréfum sem tryggir þá seljanleika.

Rökin fyrir því að hafa bréf til lengri tíma varðandi vaxtaferil eru svo sem skiljanleg því að fyrirtæki sem vilja gefa út langtímaskuldabréf þurfa að hafa einhverja viðmiðun. Jafnvel er hægt að koma með þau rök að ríkissjóður ætti að skulda eitthvað til að hafa virka vaxtastýringu á markaði, en þó er hægt að deila um það.

Fram kemur í frumvarpinu að stefnt sé að því að hafa meðallánstíma fimm til sjö ár en hann gæti hugsanlega orðið lengri. Það er að mínum dómi mikilvægt að fá fram hversu miklu lengri hann gæti orðið til að menn fari ekki fram úr sér í lengri bréfunum.

Í greinargerðinni segir að sem stendur sé meðallánstíminn innan þeirra marka en ekki sé útilokað að hann fari á einhverjum tímapunkti út fyrir mörkin. Við þær aðstæður geti aukið vöruframboð ríkissjóðs auðveldað honum að ná markmiðum um meðallánstíma.

Það að ríkissjóður sé að gefa út fleiri bréf til að mæta þörf lífeyrissjóða finnst mér ekki alveg vera rök sem eiga við í því.

Í greinargerðinni er kafli sem ber yfirskriftina Áhrif á lífeyrissjóði. Þar segir enn fremur að ætla megi að fyrirsjáanleg stækkun sjóðanna gæti leitt til aukinnar eftirspurnar af þeirra hálfu eftir skuldabréfum til lengri tíma. Með breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu verði ríkissjóði unnt að mæta slíkri eftirspurn lífeyrissjóðanna, sé hún fyrir hendi, með útgáfu skuldabréfa til lengri tíma og samræmist slík útgáfa hagsmunum ríkissjóðs og framangreindum meginmarkmiðum lánastýringar. Þetta kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra. Aukið framboð ríkisbréfa leiði til þess að vaxtastig lækki síður.

Í því sambandi verður að fá fram hvort ekki sé örugglega verið að halda ákveðnum seljanleika en þó ekki á kostnað þess að vaktavaxtastigið hækki þar sem offramboð slíkra bréfa myndi á endanum skapa slíkt ástand.

Ég tel skynsamlegra að heimild til útgáfu skuldabréfa sé ekki lengri en til 30–35 ára. Í þeim efnum tel ég að við eigum að fylgja því sem fram kemur í greinargerðinni um að ríkið hafi nýlega gefið út 30 ára skuldabréf, eins og ég nefndi fyrr í andsvari. Ég tel affarasælast að heimila ríkinu að gefa út skuldabréf til 30–35 ára og tel jafnframt nauðsynlegt að löggjafinn hafi einhverjar takmarkanir á líftíma skuldabréfa.