149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[16:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir þessa ágætu yfirferð. Það væri svo sannarlega ánægjulegt að upplifa það að við værum að ræða hér, í tengslum við fjárlög og annað slíkt, eignastýringu, þegar kemur að fjármálum ríkissjóðs, en ekki lánamál. Við eigum kannski eftir að upplifa það. Það væri mikil blessun fyrir þjóðina.

Ég segi það hér og kom inn á það í ræðu minni að frumvarpið er í sjálfu sér ágætt. Ég set einfaldlega spurningarmerki við þennan útgáfutíma á bréfunum. Það er alveg eðlilegt að lengja þennan tíma, hann er að mínum dómi of stuttur og sjálfsagt að bregðast við því.

En þá komum við aftur að því sem ég nefndi áðan. Á þetta að vera alveg opinn tékki? Ég er á þeirri skoðun að ekki sé skynsamlegt að skuldbinda þannig þjóðina, að stjórnvöld á hverjum tíma geti skuldbundið þjóðina fram í tímann. Þess vegna hef ég, eins og ég sagði, talið affarasælast að þetta væri á bilinu 30–35 ár og við myndum kannski fylgja því sem er að gerast í kringum okkur en þó varla eins og í Bandaríkjunum — hv. þingmaður nefndi réttilega 100 ár, sem er ansi langur tími. Kannski eru svolítið aðrar aðstæður þar, ég þekki það ekki nákvæmlega.

Frumvarpið sem slíkt er í mínum huga ágætt en ég hefði viljað sjá að einhver takmörk væru sett á þennan tíma, bilið væri fært upp, úr 25 árum, eins og ég sagði, kannski í 35.