149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[16:11]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vildi bara nefna að það er ekki oft sem maður rekst á mál þar sem orðið skuldabréf kemur fyrir. Reyndar er það svo að við munum vera eina þjóðin á Norðurlöndum sem höfum ekki heildarlöggjöf um skuldabréf. Jafnvel þótt þess hafi verið freistað á undanförnum árum að koma fram með tillögu eða lagafrumvarp í því efni hefur það ekki orðið úr.

Þetta minnir á að við styðjumst við ýmsan samtíning, þar á meðal mjög mikilvæga konunglega tilskipun frá 9. febrúar 1798. Ég leyfi mér að minna á fyrirspurn sem ég hef lagt fram og beint til hæstv. ráðherra, sem hér er, um það hvernig háttað sé framkvæmd fjármálastofnana á vegum ríkisins á ákvæðum þessarar tilskipunar.

Þessi umræða mætti sem best verða okkur til áminningar um að við ættum kannski að huga betur að lagaumgjörð skuldabréfamarkaðarins hér á landi. Fyrir nokkrum árum starfaði nefnd sem var falið það verkefni að undirbúa afnám verðtryggingar og skilaði tillögum. Megintillagan var sú að þegar einstaklingar gæfu út verðtryggð jafngreiðslubréf væri lánstíminn á slíkum bréfum takmarkaður við 25 ár, en hann hefur verið allt að 40 ár.

Í opinberri umræðu var gjarnan talað um bréf af þessu tagi sem „hinn eitraða kokteil“ sökum þess að það er ekki fyrr en búið er að borga af þessum bréfum í a.m.k. 20 ár sem eitthvað er farið að saxast á höfuðstólinn.

En ég ítreka hvatningu mína um að hugað verði að almennri löggjöf um skuldabréf hér á Íslandi.