149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta innlegg. Í sjálfu sér er ekki nein fyrirspurn frá þingmanninum en ég vil þó taka undir það sem hann sagði varðandi heildarlöggjöf um skuldabréf. Það er brýnt mál að mínu mati og ágætt að hv. þingmaður skyldi koma inn á það.

Að lokum vil ég hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að leggjast aðeins betur yfir þetta mál. Ég sé ekki að það skipti höfuðmáli í þessu að þetta sé opinn tékki, þ.e. að þessum takmörkunum verði lyft algerlega. Við horfum til þess að hægt sé að gefa út bréf til 30 ára, sem hefur verið gert hér í kringum okkur. Hefur það t.d. verið kannað hvort sú umræða hafi farið fram á þeim vettvangi í þeim ríkjum sem nefnd eru í greinargerðinni, um nauðsyn þess að hafa þetta enn opnara

Það væri fróðlegt að fá að vita það í þessu samhengi.

Að öðru leyti þakka fyrir ágæta umræðunni varðandi þetta mál. Þetta er náttúrlega mikilvægt mál og við verðum að fara varlega að mínum dómi og eins og ég nefndi hér áðan.