149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

rafræn birting á álagningu skatta og gjalda.

211. mál
[16:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um rafræna birtingu á álagningu skatta og gjalda, frumvarp sem lætur kannski ekki mikið yfir sér en er að mínu mati mjög mikilvægt.

Það segir í greinargerðinni að Ísland sé í kjörstöðu til að hagnýta upplýsingatæknina og það er svo sannarlega rétt þar sem nánast allir Íslendingar hafa gott aðgengi að internetinu, bæði eru fjarskiptamálin góð og þekking manna og reynsla af því að nýta internetið mjög mikil. Þess vegna fagna ég því mjög að við höldum áfram á þessari leið. Tekið er fram í greinargerðinni að með þessu er áætlað að sparist um 120 milljónir á hverju ári bara í bréfútsendingum. Þetta er töluverð upphæð. Mér skilst samkvæmt þessu að ríkið greiði í dag um 500 millj. kr. í póstsendingar á ári hverju, þannig að það er vissulega til mikils að vinna hvað fjármuni varðar.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta snýst ekki bara um að spara fjármuni heldur veitum við miklu betri þjónustu með því að færa hana yfir á internetið og gera hana aðgengilega öllum alltaf þegar þeim hentar í gegnum netið.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á þá voru Íslendingar lengi vel og sérstaklega skatturinn með fyrstu þjóðum til að hagnýta sér internetið almennilega og vera með rafræna stjórnsýslu. Við komum yfirleitt mjög vel út í alþjóðlegum samanburði hvað það varðar. Við misstum þó töluvert úr á ákveðnu árabili. Ef ég hef fundið réttu tölurnar, virðulegur forseti, þá erum við í dag í 19. sæti þegar kemur að svokölluðum, með leyfi forseta, það heitir á ensku EGDI eða E-Government Development Index, sem er einhvers konar þróunarstaðall yfir rafræna stjórnsýslu. Þar höfum við reyndar bætt okkur því að á árinu 2016 vorum við í 27. sæti en erum á þessu ári komin upp í 19. sæti, sem er vissulega jákvætt. Ég held að Danmörk sitji í fyrsta sætinu. Ég vil auðvitað eins og flestir aðrir yfirleitt að Ísland sé í toppsætunum. Því vil ég hvetja hæstv. ráðherra áfram í þessu svo og í öðrum málum þar sem við getum hagnýtt okkur rafræna stjórnsýslu, því að í henni er bæði fólginn mikill sparnaður fyrir ríkið og miklu betri þjónusta sem við veitum fyrirtækjum og einstaklingum.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)