149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[16:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra umferðarlaga. Umrætt frumvarp hefur verið á teikniborðinu um nokkurt skeið og hófst heildarendurskoðun núgildandi laga í maí 2017. Til grundvallar þeirri vinnu var eldra frumvarp sem unnið hafði verið af nefnd skipaðri af þáverandi samgönguráðherra hinn 1. nóvember 2007. Því má segja að í raun hafi verið unnið að heildarendurskoðun umferðarlaga með hléum í yfir áratug. Ef frumvarpið verður að lögum nú er því ætlað að leysa af hólmi núgildandi umferðarlög, nr. 50/1987, sem löngu var orðið tímabært að endurskoða.

Frumvarp sem fól í sér heildarendurskoðun gildandi umferðarlaga var fyrst lagt fram á 138. löggjafarþingi, 2009–2010, af þáverandi ráðherra en varð ekki útrætt. Það var lagt fram aftur á 139. löggjafarþingi með nokkrum breytingum en varð ekki heldur útrætt á því þingi og fór í kjölfarið fram endurskoðun á því í þáverandi innanríkisráðuneyti, bæði með tilliti til þeirra athugasemda sem höfðu borist samgöngunefnd Alþingis og enn fremur þeirrar þróunar sem orðið hafði á sviði umferðarmála. Endurskoðað frumvarp var lagt fram á 140. þingi en ekki var mælt fyrir því þá og hlaut það því enga efnislega meðferð í það skiptið. Loks var sama frumvarp lagt fram á 141. þingi en hlaut ekki afgreiðslu.

Það frumvarp sem nú er hér lagt fram er afrakstur víðtæks samráðs við helstu hagsmunaaðila og almenning. Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru birt á vef samgönguráðuneytisins í janúar sl., þar sem óskað var eftir sjónarmiðum almennings og hagsmunaaðila. Alls bárust 32 umsagnir vegna þessa. Í kjölfarið voru í febrúar birt á samráðsgátt Stjórnarráðsins drög að frumvarpi ásamt greinargerð þar sem aðilum gafst kostur á að gera breytingar á ákvæðum frumvarpsins ásamt því að koma að athugasemdum við einstakar greinar í þar til gerðum dálki. Alls bárust 52 umsagnir um frumvarpsdrögin frá hagsmunaaðilum, stofnunum og einstaklingum.

Unnið var úr umsögnum og í kjölfar þess var heildarfrumvarp til nýrra umferðarlaga birt á samráðsgátt stjórnvalda í júlí sl., en þá bárust ráðuneytinu tæplega 30 umsagnir sem unnið var úr og varð afraksturinn frumvarpið sem mælt er fyrir hér í dag. Víðtækt samráð við hagsmunaaðila og almenning er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða umferðarlög sem snertir svo að segja allan almenning að meira eða minna leyti. Allir þurfa að þekkja þau og allir hafa á þeim skoðun.

Á þeirri rúmu öld sem bifreiðum hefur verið ekið um vegi landsins hafa allt of margir látið lífið eða örkumlast í umferðinni. Frá árinu 1915 hefur þannig ekki liðið eitt einasta ár þar sem enginn hefur látið lífið í umferðarslysi. Marktækur árangur hefur náðst en betur má þó ef duga skal. Gríðarleg fjölgun erlendra ferðamanna og umferðaraukning sem orðið hefur á vegum landsins í kjölfarið leiða það af sér að umferðaröryggismál eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Þannig er sérstaklega þýðingarmikið að regluverk um umferðarmál sé skýrt og til þess fallið að þjóna því markmiði sem finna má í 1. gr. frumvarpsins. Banaslysum á sjó og í lofti hefur svo til verið útrýmt og standa vonir til þess að í framtíðinni megi sömu sögu segja um banaslys í umferðinni. Bætt regluverk er eitt skref í átt að því markmiði.

Ég geri nú nánari grein fyrir einstökum nýmælum og breytingum sem felast í þessu umfangsmikla frumvarpi. Fyrst ber að nefna að sett er inn markmiðsgrein í 1. gr. frumvarpsins en slíkt hefur ekki verið að finna umferðarlögum til þessa. Markmið frumvarpsins er umfangsmikið en það er, með leyfi forseta, „að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda, óháð samgöngumáta, og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar“.

Í samræmi við það sjónarmið að gefa gangandi og hjólandi vegfarendum meira vægi er sett fram skilgreining á óvörðum vegfaranda, með leyfi forseta:

„Vegfarandi sem ekki er varinn af yfirbyggingu ökutækis í umferð, svo sem gangandi og hjólandi vegfarandi, þ.m.t. ökumaður og farþegi bifhjóls og torfærutækis.“

Þá er hugtakið göngugata skilgreint og sett fram ákvæði um reglur sem gilda skulu í göngugötum. Þannig er umferð vélknúinna ökutækja í slíkum götum almennt óheimil utan neyðarbifreiða og akstursþjónustu fatlaðs fólks, auk þess sem vörulosun er heimil á ákveðnum tímum.

Hjólreiðakafli gildandi laga hefur verið tekinn til heildarendurskoðunar og reglur um hjólreiðar skýrðar. Lagt er til að hjálmaskylda barna verði nú fest í umferðarlög en fram til þessa hefur hana aðeins verið að finna í reglugerð. Með frumvarpinu er lagt til að reglur um akstur í hringtorgum sem hefð hefur myndast fyrir hér á landi verði lögfestar. Samkvæmt reglunum skal ökumaður á ytri hring veita þeim sem ekur á innri hring forgang út úr hringtorgi. Þá er í frumvarpinu að finna bann við akstri gegn rauðu ljósi en hingað til hefur slíkt bann aðeins verið að finna í reglugerð. Þar sem um grundvallaröryggisreglu er að ræða þykir rétt að festa hana í umferðarlög.

Eitt helsta nýmæli frumvarpsins er að lagt er til að lækkuð verði mörk leyfilegs vínandamagns í blóði ökumanns úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill. Með lækkun marka áfengismagns í blóði ökumanns er verið að senda skýr skilaboð til ökumanna og þjóðfélagsins í heild um að akstur og áfengisdrykkja fari einfaldlega ekki saman. Ekki er þó gert ráð fyrir ökuleyfissviptingu ef magn áfengis er milli 0,2 og 0,5 prómilla, heldur einungis sekt.

Akstur undir áhrifum vímuefna og lyfja er vaxandi vandamál. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um vanhæfismörk vegna ýmissa lyfja. Er það sú leið sem farin hefur verið í Noregi með góðum árangri. Slíka reglugerðarheimild er ekki að finna í núgildandi lögum.

Snjalltæki verða sífellt algengari og varla finnst sá maður í dag sem ekki notast við slík tæki að einhverju leyti. Notkun þessara tækja í umferðinni veldur enn meiri hættu en það að tala í farsíma og þess vegna er hugtakið snjalltæki skilgreint í frumvarpinu og skýrt kveðið á um bann við notkun slíkra tækja auk farsíma við stjórnun ökutækja.

Heimildir eftirlitsmanna lögreglu til eftirlits með akstri ökutækja til farþega- og farmflutninga yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd eru auknar og gerðar skýrari. Þetta varðar eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna, búnaði, stærð, þyngd og hleðslu ökutækja.

Það nýmæli er að finna í frumvarpinu að aðilar geta óskað eftir leyfi til prófana á sjálfakandi ökutækjum. Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði slíkra prófana. Er þetta fyrsta skrefið í að innleiða nýja tækni og ný tæki og opnar fyrir þá möguleika að slík ökutæki verið prófuð við einstakar íslenskar aðstæður.

Í takt við almenna hækkun sekta sem kynnt var fyrr á þessu ári með nýrri reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, nr. 288/2018, gerir frumvarpið ráð fyrir að hámark mögulegra sekta verði hækkað úr 300.000 kr. í 500.000 kr.

Hugtakið „umráðamaður“ er skilgreint í frumvarpinu og sett þannig fram að á nokkrum stöðum er það sett innan sviga á eftir hugtakinu „eigandi“. Þannig er lögð áhersla á að skyldur umráðamanns eru afleiddar af þeim kvöðum sem lagðar eru á skráðan eiganda ökutækis samkvæmt frumvarpinu. Umráðamaður telst samkvæmt frumvarpinu vera sá sem með samþykki eiganda ökutækis hefur umráð yfir því. Aðili telst ekki umráðamaður nema hann sé skráður sem slíkur í ökutækjaskrá, t.d. samkvæmt samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki. Er þetta gert til að leggja áherslu á að réttindi og skyldur umráðamanns byggjast í raun á samningum eiganda og umráðamanns og leitast er við að eyða þeirri lagalegu óvissu sem verið hefur uppi um stöðu þeirra sem hafa ökutæki til umráða án þess þó að vera skráðir eigendur þeirra.

Lagt er til að sveitarstjórnir og Vegagerðin í tilvikum þjóðvega geti takmarkað eða bannað umferð um stundarsakir á vegi eða svæði þegar mengun er yfir heilsufarsmörkum eða hætta er talin á að svo verði. Takmarkanir geta m.a. falist í breytingum á hámarkshraða, takmörkun á umferð stærri ökutækja eða takmörkun almennrar umferðar. Ekki er um opna heimild til handa veghaldara að ræða, heldur verður slíkt bann eða takmörkun að vera stutt mæliniðurstöðum og mengunarspám líkt og sérstaklega er tekið fram í frumvarpinu.

Lagt er til að heimilt verði undir ákveðnum kringumstæðum, þegar brot er numið í löggæslumyndavél, að láta eiganda eða umráðamann ökutækis sæta refsiábyrgð á hlutlægum grundvelli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þannig yrði í vissum tilvikum eigandi ökutækis látinn sæta ábyrgð en ekki ökumaður. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt verði að gera skráðum eiganda eða umráðamanni vélknúins ökutækis að greiða sekt ef brot er numið í löggæslumyndavél, þ.e. hraðakstur eða akstur gegn rauðu ljósi. Tillagan um hlutlæga ábyrgð nær aðeins til brota sem varða ekki punkta. Ef aksturinn varðar punkta í ökuferilsskrá er um hefðbundið lögreglumál að ræða.

Í frumvarpinu er kveðið á um að ákvæði XIII. kafla gildandi umferðarlaga um fébætur og vátryggingu verði samhliða afnumin með það í huga að sett verði sérlög um ökutækjatryggingar. Í ákvæði til bráðabirgða er þó gert ráð fyrir að kaflinn haldi gildi sínu þar til ný lög taka gildi um lögmæltar ökutækjatryggingar. Gert er ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram á næstunni frumvarp þess efnis. Legg ég áherslu á að afar mikilvægt er að frumvarp til umferðarlaga og frumvarp til laga um ökutækjatryggingar fari samhliða í gegnum þingið þar sem um er að ræða endurskoðun gildandi umferðarlaga.

Herra forseti. Ég hef nefnt hér helstu nýmæli frumvarpsins. Ekki gefst tími til að greina frá öllum þeim breytingum sem felast í frumvarpinu en ítarlega er gerð grein fyrir þeim í almennri greinargerð sem fylgir frumvarpinu. Það er mikilvægt að vel takist til við endurskoðun umferðarlöggjafar landsins. Um er að ræða þann lagabálk sem snertir flesta, ef ekki alla, Íslendinga og hvern þann sem dvelur hér til skamms eða lengri tíma. Það er auðvitað svo að skoðanir eru skiptar um einstök útfærsluatriði í löggjöf sem þessari. Það er hins vegar mín skoðun að með samþykkt þess frumvarps sem hér er mælt fyrir muni Ísland standa jafnfætis þeim þjóðum sem við kjósum að bera okkur saman við hvað varðar heildstæða umferðarlöggjöf og umferðaröryggi.

Að lokum vil ég leggja áherslu á að margar veigamiklar breytingar eru fyrirhugaðar á umferðarlöggjöfinni verði frumvarpið að lögum. Ég vek athygli á því að lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2020. Er afar þýðingarmikið að frumvarp þetta sem hefur verið í smíðum um nokkurt árabil og felur í sér töluverðar breytingar á löggjöf sem kemur beint eða óbeint við almenning allan sé kynnt með víðtækum hætti áður en það öðlast gildi.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.