149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð. Það er margt ágætt í frumvarpinu, mikilvæg nýmæli sem er rétt að hafa þar inni. Ég fagna því.

Ég vildi koma aðeins inn á það við hæstv. ráðherra sem varðar skráningu ökutækja og kemur fram í 72. gr. í frumvarpinu. Þar segir að heimilt sé að skrá breytingalása á ökutæki í ökutækjaskrá. Breytingalás takmarki heimildir til skráningar ökutækis í umferð.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri rétt að hafa það svolítið skýrara og þá vil ég sérstaklega nefna tjónabifreiðar. Væri ekki rétt að hafa í lögunum hvernig skráningu á tjónabifreið er háttað? Ég veit að það er í reglugerð og væntanlega í þeim breytingalás sem kemur fram í frumvarpinu.

Það er þekkt að vátryggingafélögin leysa til sín ökutæki vegna tjóns og selja þau svo aftur á uppboði. Síðan fara ökutækin væntanlega í umferðina aftur. Við mörg þeirra er ekki gert á viðurkenndum vegstæðum og ég held að tryggingafélögin fylgist ekki sérstaklega með því. Það er því spurning hvað ráðherra sér fyrir sér í því. Væri ekki æskilegt að hnykkja á þessu varðandi tjónabifreiðar í lögunum sjálfum?