149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[16:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Eins og ég fór yfir er umferðarlöggjöfin býsna víðtæk og snertir mjög marga þætti. Hingað til hefur eingöngu verið fjallað um breytingalása í verklagsreglum Samgöngustofu en þar sem um er að ræða, eins og hv. þingmaður kom inn á, verulega íþyngjandi en þó nauðsynlegt inngrip þótti rétt að festa slíka heimild til skráningar í umferðarlögin. Ákvæðið er þar af leiðandi nýmæli. Með breytingalás er átt við sérstaka skráningu í ökutækjaskrá sem fer fram hjá Samgöngustofu. Í skráningu um breytingalás felst að heimildir til nýskráningar, skráningar eigandaskipta og/eða skráningar ökutækis í umferð eru takmarkaðar.

Ef menn telja í nefndinni að þetta sé ekki nægilega skýrt og ekki heldur greinargerðin sem fylgir er auðvitað sjálfsagt mál að farið verði betur yfir það í meðförum nefndarinnar og reynt að skýra það enn frekar. En ég held að klárlega sé til bóta að koma því ákvæði inn í lögin frekar en að hafa það eingöngu sem verklagsreglur hjá Samgöngustofu.