149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var á sínum tíma í starfshópi um endurskoðun á vímuefnastefnu. Eitt af því sem við tókumst á við er vímuefnaakstur, hvernig hann er skilgreindur. Í gildandi lögum er hann skilgreindur þannig að ef niðurbrotsefni af vímuefnum finnast í þvagi er viðkomandi sekur um vímuefnaakstur, algjör vitleysa að mínu mati. Ég ætlaði út í það í ræðu á eftir og verið er að laga það með þessu frumvarpi þannig að skilgreiningin verði niðurbrotsefni í blóði í staðinn fyrir þvagi. Er það í samræmi við ráðleggingar sem starfshópurinn lagði til á sínum tíma. Við skiluðum skýrslu sem fjallað var um eftir það og ég hef verið að bíða eftir þessum þætti málsins alla tíð síðan.

Ég man að þegar við vorum að bardúsa þetta með vímuefnaaksturinn litum við einmitt til Noregs. Þar var útfærslan, eins og ég skildi hana, sú að það væru í raun viðmiðunarmörk fyrir ólögleg vímuefni. Það væri ekki einfaldlega þannig að ef þau fyndust yfir höfuð í einhverjum tilteknum líkamsvessum væri viðkomandi sekur, heldur væri einhver mæling.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að í þessu frumvarpi er einnig tekið mið af norsku leiðinni í sambandi við sljóvgandi og örvandi efni, eitthvað sem ég tel í grunninn jákvætt. Ég tel norsku aðferðina vera rétta svo að ég segi það nú bara.

Við lögðum þessa tillögu til á sínum tíma, að vímuefnaakstur yrði metinn út frá því hvort niðurbrotsefni væru í blóði eða ekki vegna þess að það væri einfaldara en að leggja til eitthvað eins og hér er komið inn á borð. Ég fagna því reyndar að þetta sé komið hingað vegna þess að þá komumst við kannski nær þeirri leið sem ég myndi vilja fara.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver skörun sé þarna á milli. Vímuefni geta verið lögleg, örvandi vímuefni sem eru notuð við alls kyns kvillum, þannig að fólk getur haft rétt til að nota þau. (Forseti hringir.) Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé einhver skörun á þessum tveimur aðferðum við að meta hvað teljist til vímuefnaaksturs.