149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[16:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að hér er verið að gera breytingar á mælingum, að þær fari aðeins fram á blóði ökumanns. Þetta er gert þar sem það er almennt viðurkennt að þegar ávana- og fíkniefni eða óvirkt umbrotsefni þess mælist aðeins í þvagi en ekki blóði er almennt rétt að álykta að slíks efnis hafi verið neytt en ekki sé lengur um það að ræða að ökumaður hafi verið undir áhrifum við stjórnun ökutækisins, þ.e. hann telst ekki endilega óhæfur til að stjórna því.

Sú leið sem verið er að fara — og ég tel að það svari spurningu hv. þingmanns — er að horfa til þessarar norsku leiðar um vanhæfismörk, m.a. vegna ábendingar frá landlæknisembættinu. Í 6. mgr. 48. gr. frumvarpsins fær ráðherra heimild til að kveða á um vanhæfismörk vegna lyfjaneyslu, ekki endilega að ólöglegum vímuefnum, eins og hv. þingmaður benti á, þ.e. hvenær ökumaður teljist óhæfur til að stjórna ökutæki vegna neyslu lyfja. Hér er fyrst og fremst átt við neyslu löglegra lyfseðilsskyldra lyfja og ákvæðið byggir á sambærilegu ákvæði sem finna má í norsku umferðarlögunum.

Gert er ráð fyrir að í þeirri reglugerð verði kveðið á um hámarksmagn tiltekinna lyfja í blóði sem og hámarksmagn ávísaðra lyfja. Þannig væri sem dæmi hægt að hindra að fólk sem fær ávísað miklu magni lyfja, sem geta haft áhrif á ökuhæfni, stjórni vélknúnum ökutækjum. Ég sé ekki í fljótu bragði að skörun sé þarna á milli. Þó að þetta snúi fyrst og fremst að hefðbundnum ávísuðum lyfjum þarf að setja einhver mörk og meta það. Heilbrigðiskerfið myndi gera það og reglugerð ráðherra myndi þá byggja á slíkum skilgreiningum á mörkum.

Ég er sammála hv. þingmanni um að sú leið sem Norðmenn hafa farið hefur sýnt sig að vera mun betri en þær leiðir sem við höfum verið að fara áður.