149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi áfengis- og vímuefnaakstur, eðlilega, og fagnar því að verið sé að herða á því. Ég geri það líka.

Ég er þó mjög feginn breytingunni sem kemur fram í 50. gr. um muninn á því hvernig vímuefnaakstur er skilgreindur, eins og ég fór yfir áðan og ætla ekki að þreyta hv. þingmann frekar með því en mun taka það fyrir í ræðu á eftir.

Hv. þingmaður nefndi, eins og hæstv. ráðherra, að skilaboðin ættu að vera skýr í sambandi við þetta. Ég er alveg sammála, skilaboðin eiga að vera skýr og lögin eiga að vera skýr. En ef við ætlum að hafa það þannig með ólögleg vímuefni að ef það eru niðurbrotsefni í blóði yfir höfuð teljist viðkomandi vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og örugglega óhæfur til að stjórna ökutæki — og gott og vel, það er lögmæt skoðun og ég skil að fólk sé þeirrar skoðunar — þá velti ég ölvunarakstri fyrir mér. Í 49. gr. er talað um bann við ölvunarakstri og þar eru mörk, 0,2‰ og 1,20‰ og um magn vínanda í lofti sem viðkomandi andar frá sér og nemur 0,1 milligramm í lítra lofts o.s.frv.

Svo að við höfum það á hreinu, og ég vona að allir séu meðvitaðir um þá staðreynd, er áfengi ekkert minna dóp af því að það er löglegt. Það veldur líka heilsuspjöllum og ótrúlegri heimsku og vissulega skertri akstursgetu.

Ef við ætlum að segja að núllið sé það sem við viljum sjá í blóði þegar kemur að vímuefnaakstri, eitthvað sem ég gæti alveg tekið sem gilda skoðun, ætti það þá ekki að vera eins með áfengi? Áfengi er ekkert betra bara vegna þess að það er löglegt, þvert á móti ef eitthvað er. Ættum við ekki að samræma það? Við viljum væntanlega að skilaboðin um afstöðu gagnvart ölvunarakstri séu jafn skýr (Forseti hringir.) og gagnvart vímuefnaakstri?