149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:17]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Nýju umferðarlögin eru miklir bálkar. Ég ætla ekki að fara ofan í neinn af þeim og allra síst í þessari umræðu um prómill, en vekja aðeins athygli á 85. gr. þessa lagafrumvarps sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir og fjalla um loftmengun.

Fram kemur að sveitarstjórnum eða Vegagerð er heimilt að takmarka eða banna umferð þegar mengun er yfir ákveðnum heilsutakmörkunum, ef við getum orðað það svo, eða hætta er á að svo verði. Til að þetta geti gerst þarf auðvitað mæliniðurstöður og einhverjar mengunarspár ef því er að skipta og það eru líka fyrirskrifaðar ákveðnar aðgerðir sem hægt er að grípa til. Það má t.d. lækka hámarkshraða eða takmarka umferð o.s.frv. Ráðherra getur svo sett nánari ákvæði um þetta efni, t.d. um neglda hjólbarða, hvenær þá má nota og hvenær ekki.

Aðalmálið er að góð loftgæði eru mikilvæg réttindi, sumir segja mannréttindi í samfélögum þar sem mengandi umferð er áberandi. Það er ekki úr vegi að fara aðeins yfir hvað er um að ræða þegar við tölum um mengun frá ökutækjum.

Lausleg yfirferð segir mér að þegar kemur að svifryki og grófu ryki, þ.e. aðeins stærra en þessar nánast ósýnilegu agnir sem við kölluðum svifryk, þá er um að ræða bergbrot úr grjótinu sem er hluti af malbikinu, það er jú reiknað með að þetta sé bundið slitlag. Og það eru tjöruagnir, það eru málmagnir úr nöglum og öðru, það er salt þar sem mikið er saltað og það eru plast- eða gúmmíagnir sem koma úr hjólbörðum sjálfum. Nú er það orðið þannig að hjólbarðar eru fyrst og fremst plastefni en ekki náttúrugúmmí lengur. Og síðan er það sót, einkanlega úr dísilvélum, og bremsuborðaagnir.

Ég hef þetta fyrir mér vegna þess að þetta hefur verið rannsakað og hlutföllin eru býsna ólík eftir því hvað um er að ræða. Menn eru auðvitað sammála um að þetta er óttalegt ullabjakk og engum til gagns og mjög mikilvægt að skera það niður eins og hægt er.

Síðan koma lofttegundirnar, þ.e. kolefnisoxíð sem eru brún og þegar við sjáum brúna skýið svífa hér yfir bænum á lognkyrrum dögum, einkum á veturna, þá er það það sem við sjáum. Það eru sem sagt köfnunarefnisoxíðin. Koldíoxíð kemur við sögu við bruna þessara jarðefnaeldsneyta og það er auðvitað gróðurhúsalofttegund en skaðlaust okkur að sjálfsögðu því að við öndum því frá okkur. Síðan er það kolmónoxíð sem er baneitrað, eins og allir vita sem hafa séð kvikmyndir þar sem menn taka líf sitt í lokuðum bílskúrum og láta bílana ganga. Síðan eru það ýmis snefilefni sem ég ætla ekki að fara yfir.

Ég nefni þetta hérna vegna þess að þegar við tölum um loftmengun erum við í raun og veru að tala um fjölbreytta flóru ef þannig má segja. Þar koma áhrif negldra hjólbarða mjög skýrt inn vegna þess að þeir auka á allt þetta sem ég hef verið að nefna.

Síðan eru áhrif salts. Það er ekki þannig að salt leysi upp tjöru eða eitthvað álíka. Það sem saltið gerir, þetta er bara barnaskólaeðlisfræði nánast, er að ef snjór er á annað borð á dekkinu, á veginum eða götunni og saltað er verður til 20–22 stiga frost í dálítinn tíma. Þið vitið hvað gerist þegar vökvi sem fyrir er frýs, við skulum segja slydda, vatn eða snjór sem hefur bráðnað, þá þenst vökvinn út um 10%. Svo kemur þíðan og búið er að þvo þetta af götunum eða hvað eina og svo kemur næsti snjór, það getur verið sama dag, og þá er saltað aftur og þá er aftur 22 stiga frost og svona gengur þetta fram og til baka vikum saman yfir veturna. Þið getið rétt ímyndað ykkur frostþensluna og frostveðrunina á götunum.

Þetta er eitt af því sem er stórlega vanmetið í öllum umræðum um loftmengun. En sem sagt, 85. gr. er meðal framfara í þessum lagabálki, þessu frumvarpi, og minnir okkur á að mikilvægt er að vinna að bættum loftgæðum í þéttbýli. Ég ætla að nefna af hverju, það eru jú orkuskiptin.

Við þurfum að sjá til að þess að nota æ minna af jarðefnaeldsneyti. Það er síðan naglanotkunin, reyna að halda henni sem mest í skefjum. Svo er það saltnotkunin af augljósum ástæðum, ég var að nefna hana, bæði vegna þess að það er svifryksmyndandi og eins vegna þess að það eykur álag á götunum. Almenningssamgöngur koma þar inn í líka. Því meiri sem þær eru, því meiri sem þessi svokallaða kollektífa traffík er, eins og þetta kallast á útlensku, því minna álag er á lungun okkar og auðvitað á göturnar sjálfar.

Mig langar áður en ég lýk máli mínu að vara við einu sem ég hef heyrt og séð í fjölmiðlum og það er að einhverjum hefur dottið í hug að fara að blanda plasti í malbik. Þið vitið hvernig malbik er búið til, úr bergbroti, það hefur verið notað gler, alltsvo mulið gler hefur verið notað, en nú á að fara að bæta plastögnum í súpuna. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað gerist ef plastagnir eru í yfirborði á götum með því álagi sem ég hef nefnt, nöglum eða hvað eina, að við erum bara að búa til haug af örplasti sem annaðhvort lendir þá sem svifryk ofan í okkur eða fer út í sjó, lendir í sjó með afrennsli af götum. Ég hef sjaldan heyrt jafn fáránlega og óásættanlega hugmynd, að blanda plasti, rifnu plasti, harðplasti eða tefloni eða hvað sem menn vilja hafa í malbik á Íslandi og hvar sem er svo sem í heiminum.

En sem sagt, þetta er ágætisframfarafrumvarp sem bragð er að og ég styð það eins og ég get.