149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Eftir að hafa unnið áratugum saman með lög nr. 50/1987, þ.e umferðarlögin, fer manni ósjálfrátt að þykja vænt um þau, ef svo má að orði komast. Maður þekkir flest lagaákvæðin enda oft þurft að glíma við þau og heimfæra háttsemi til þeirra. Því eru persónulegar tilfinningar tengdar því þegar lögin í heild eru tekin til endurskoðunar eins og nú og gömlu ákvæðin hljóta sum hver ný númer.

Að sjálfsögðu er í nýrri lagasetningu tekið á mörgum álitaefnum sem hefur borið á góma á umliðnum árum og hafa verið að gerjast í stjórnkerfinu og reyndar hér á Alþingi því að nokkrar atlögur hafa verið gerðar að því að setja ný umferðarlög og hafa slík frumvörp birst hér a.m.k. fjórum sinnum á fjórum þingum eftir 2007 en ekki hlotið afgreiðslu.

Það má því segja að það frumvarp sem hér birtist hafi hlotið margháttaða yfirferð því að það byggist að miklu leyti á þeirri vinnu sem þá fór fram, þótt töluverðar efnislegar breytingar hafi verið gerðar, eins og segir í greinargerðinni.

Markmið frumvarpsins er að auka umferðaröryggi, færa ákvæði umferðarlaga til nútímalegra horfs, laga óskýr lagaákvæði, aðlaga umferðarlögin að alþjóðlegum skuldbindingum okkar og taka mið af breyttum samgönguvenjum, svo sem til almenningssamgangna og hjólreiða.

Þá er ekki allt upp talið því að frumvarpinu er einnig ætlað að lögfesta grundvallarefnisreglur á afmörkuðum sviðum laganna sem áður var í valdi ráðherra að útfæra nánar með reglugerðarsetningu. Er sérstök ástæða til að fagna þeirri viðleitni enda hefur það ávallt verið þyrnir í augum refsiréttarins að ráðherra sé veitt víðtækt vald til setningar refsiheimilda.

Jafnframt ber að fagna því markmiði í frumvarpinu, þar sem leitast er við að útfæra reglugerðarheimildir ráðherra með skýrari hætti en áður hefur verið. Loks er eitt af markmiðunum að gera tillögur um tilteknar efnisbreytingar varðandi viðurlög við brotum og gera þau skilvirkari og auka varnaðaráhrif þeirra.

Herra forseti. Það er þakkarvert að banaslysum í umferðinni hefur fækkað á síðustu áratugum og hafa verið 12–13 slík slys í umferðinni á síðustu tíu árum, á hverju ári, samanborið við helmingi fleiri á árunum þar á undan. Þessi þróun er þökkuð lækkuðum ökuhraða, betri öryggisbúnaði og aukinni notkun hans auk áherslna í að stemma stigu við ölvunarakstri. Þarna spila líka inn í öruggari ökutæki og betri umferðarmannvirki og markvissara forvarnastarf.

Hins vegar er ekki sömu sögu að segja um fjölda þeirra sem slasast alvarlega í umferðarslysum. Þar hefur ekki náðst sami árangur og varðandi banaslysin. Það er eftirtektarvert að flest þeirra slysa verða á þjóðvegum í dreifbýli. Sú vísa sem ég ætla nú að fara með er að mínu viti aldrei of oft kveðin, hversu nauðsynlegt er að við höldum vöku okkar og höldum úti öflugri, almennri löggæslu á vegum landsins og drögum ekki af okkur við það. Þá vil ég einnig nota tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra til fjölgunar hraða- og eftirlitsmyndavéla sem ég tel að gagnist vel við að halda niðri ökuhraða á þeim vegarköflum þar sem þær eru staðsettar.

Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fækka alvarlegum umferðarslysum. Í því sambandi vil ég einnig benda á breyttan veruleika varðandi akstur undir áhrifum vímuefna. Umhverfið er mjög breytt frá því fyrir áratug og er nauðsynlegt að veita lögreglu liðsinni í því að berjast gegn þeirri hættu sem ökumenn undir áhrifum ýmissa vímuefna skapa í umferðinni.

Fyrst ég er byrjaður að ræða umferðaröryggi verð ég að minnast á erlend ökuskírteini en í 63. gr. frumvarpsins er ráðherra falið að setja reglur í því efni. Þar hefur umhverfið breyst geysilega á umliðnum árum þegar ferðamenn frá fjarlægum löndum koma hingað til lands með ökuréttindi sem þeir hafa öðlast í sínu heimalandi og byggjast stundum á allt öðrum kröfum en við eigum að venjast. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að láta fara fram ítarlega könnun í þessu sambandi því að hér er um gífurlegt umferðaröryggismál að ræða.

Herra forseti. Ég hef ekki grandskoðað þetta frumvarp, enda er það 118 blaðsíður, að mér sýndist, en vil minnast á nokkur atriði til viðbótar. Fyrst vil ég fagna því að reglur um afturköllun ökuréttinda, eins og greinir í 64. gr. frumvarpsins, eru gerðar skýrari en bráðabirgðaheimildir lögreglustjóra þurfa þar að vera ótvíræðar. Einnig vil ég nefna 101. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir heimild til að svipta ökumann farþega- og farmflutningabifreiðar ökuréttindum til aksturs þeirra bifreiða verði hann í þriðja skipti uppvís að því að brjóta gegn ákvæðum um akstur og hvíldartíma. Þarna tel ég allt of langt seilst og að nægilegt sé að beita sektum sem hafa fullkomin varnaðaráhrif í þá veru að stemma stigu við brotum sem þessum.

Rétt í lokin ætla ég að ræða um 37. gr. frumvarpsins sem er sama grein í gömlu lögunum mér til mikillar ánægju, þ.e. um ökuhraða. Ég sakna þess, sem ég ekki sé í frumvarpinu, að ekki sé veitt sambærileg ítrekunarheimild varðandi brot á umferðarhraða eins og varðandi ölvunarakstur. Í 100. gr. frumvarpsins eru ákvæði um viðurlög við brotum á ölvunarakstri þar sem er ítrekunarheimild við ítrekuðum ölvunarakstri og svipting og sektir fara hækkandi eftir ítrekun. Ekki er um það sama að ræða varðandi brot á ökuhraða og ég sakna þess. Það var ekki í gömlu lögunum, ég er ekki að segja að þetta sé breyting, ég er að segja að ég sakna þess að þetta sé ekki í frumvarpinu. Ég tel að þess þurfi. Það er algerlega óeðlilegt að maður sem verður uppvís að því að keyra á ofsahraða er tekinn og sviptur í einn mánuð og fær einhverja sekt. Síðan er hann tekinn aftur eftir hálft ár og fær sömu refsingu, ef hann er á sama hraða og þannig getur þetta endurtekið sig. Auðvitað eru einhver almenn sjónarmið varðandi framferði ökumanns og hægt að beita harðari viðurlögum en það eru bara almenn atriði. Hér er ég að tala um sérstök ítrekunaráhrif af ítrekuðum brotum hvað varðar hraðakstur sem ég sakna í lögunum. Ég vil hvetja til þess að það verði skoðað.