149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fólk hefur ekki sjálfstæðan rétt til að stjórna ökutæki, það hefur einungis leyfi til að stjórna ökutæki. Þess vegna setjum við ákveðin skilyrði fyrir því að fólk megi stunda þessa iðju. Ég er sjálfur ekki mikill aðdáandi umferðar og mér finnst pínu galið að keyra bíl yfir höfuð, hvað þá undir áhrifum einhverjar efna, svo ég segi það nú bara og mér er almennt í nöp við bílamenningu og bílaumferð. Það er bara persónuleg skoðun sem mig langaði að henda hérna fram til að pirra þá sem eru á móti fólki sem er á móti bílum.

Það er margt gott í þessu frumvarpi. Mér finnst mjög gott að verið sé að herða refsingar fyrir ýmsa háttsemi eins og að tala í síma í bílum og nota snjalltæki á meðan fólk er að keyra bíl eða stjórna ökutæki. Það er hegðun sem fer afskaplega mikið í taugarnar á mér, af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er það óöryggið sem þetta veldur. Maður sér það alveg á ökulaginu þegar einhver er að tala í síma eða eitthvað því um líkt, það verður svo fáránlegt. Í öðru lagi vegna þess að fólk á auðvelt með að sannfæra sig um að það sé sjálft megnugt að stjórna ökutæki, eins og engu skipti þótt það sé í símanum. Þetta er jú bara síminn, maður er bara að klára eitthvert samtal, gera eitthvað rosa lítið. Það fer afskaplega í taugarnar á mér þegar fólk telur sig hafið yfir mjög algilda, líffræðilega þætti sem gera okkur ófær um að stjórna ökutæki.

Vel á minnst, mér finnst mjög jákvætt að það sé hert á ákvæðum um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna og að viðmiðin um heimilt áfengismagn í blóði sé lækkað. Mér finnst það mjög jákvætt og styð slíkt enda þykir mér tiltölulega galið, eins og ég segi, að keyra edrú, hvað þá undir áhrifum vímuefnis, löglegs eða ólöglegs.

Ég fór aðeins í andsvörum við hæstv. ráðherra og annan hv. þingmann út í akstur undir áhrifum vímuefna eins og það birtist í frumvarpinu. Ég veit að þetta er ekki eitthvað sem flestir hér inni líta á sem aðalatriði í umræðu um umferðarlög. Ég verð þó að segja að ég er í flokki sem heitir Píratar og bauð sig fram m.a. til þess að endurskoða sérstaklega hina fráleitu vímuefnastefnu sem hefur viðgengist áratugum saman hér á landi. Í þessu frumvarpi er efni sem varðar þau málefni á mjög djúpstæðan hátt.

Vímuefni eru hluti af mannlegri menningu hér sem annars staðar. Þau eru það. Okkur getur verið illa við þau og við getum reynt að hafa fyrirkomulagið þannig að sem fæstir verði fyrir skaða og að það sé sem ólíklegast að fólk verði fyrir skaða af völdum þessara efna. Stefnan sem tekin hefur verið upp í vestrænni menning er svokölluð refsistefna, stundum nefnt með réttu að mínu mati dópstríðið. Þetta dópstríð hefur haft hræðilegar afleiðingar fyrir mannréttindi fólks. Líka hér á Íslandi. Ég nota ekki orðið mannréttindabrot af léttúð, ég nota það ekki nema ég sé viss um að ég geti rökstutt slíka fullyrðingu en í gildandi lögum er til staðar það sem ég vil meina að sé hreint og klárt mannréttindabrot og hljóti að vera það að mati allra sem trúa því að það eigi ekki að dæma fólk sekt fyrir eitthvað sem það einfaldlega gerði ekki. Það er grundvallaratriði réttarríkisins og lýðræðisins og alls frelsis sem við eigum að viðurkenna.

Þótt ég sé hér að tala um vímuefnaakstur í samhengi við umferðarlög þá skal enginn segja mér að þetta skipti ekki máli eða sé eitthvert aukaatriði eða smáatriði. Svo er ekki. Í gildandi umferðarlögum er fólk sekt um akstur undir áhrifum vímuefna ef það finnast niðurbrotsefni ólöglegra vímuefna í þvagi. Það eru til dæmi þar sem menn eru dæmdir fyrir þennan glæp, að mínu mati mjög alvarlega glæp, þegar allir eru sammála um að viðkomandi var ekki í vímu við akstur. Ef það er ekki mannréttindabrot í réttarríki þá veit ég ekki hvað er það. Einhvern veginn ákveður Ísland og önnur samfélög eflaust líka að þetta sé í lagi vegna þess að það er búið að taka fyrir þennan hóp, þennan hræðilega hóp sem hefur ákveðið að gera við sinn eigin skrokk það sem honum sýnist og láta ekki segja sér hvað megi gera við hann og nota svokölluð ólögleg vímuefni. Gott og vel að fólki sé illa við það. Gott og vel ef fólk vill taka á því en að gera það með því að dæma fólk sekt um hluti sem það er ekki sekt um er og á ekki að vera í boði.

Í samhengi við það að við Píratar fórum á þing til að díla svolítið við þessi mál þá endaði ég í starfshópi um endurskoðun á vímuefnastefnu og við sendum frá okkur skýrslu með 12 tillögum. Tillaga nr. 3 er sú að endurskoða ákvæði í umferðarlögum um vímuefnaakstur. Sú tillaga er innleidd með þessu frumvarpi. Reyndar verður líka að segjast að sú breyting hafði verið lögð til áður en náði ekki fram að ganga á Alþingi á þeim tíma.

Þegar við vorum að skoða þetta atriði í starfshópnum þá voru nokkrir möguleikar eins og oft er og einn var sá að fara það sem við kölluðum norsku leiðina. Í Noregi eru ýmis viðmið um hvað sé leyfilegt af efnum í blóði og er það flokkað niður í reglugerð, svipað og við gerum með áfengi hér nema það er ráðherra sem ákveður það þar, eða það er sett í reglugerð öllu heldur. Sú aðferð hugnaðist mér persónulega best en við sáum fyrir okkur að það myndi þýða að við þyrftum að koma okkur upp þekkingu á því hvaða efni hafi hvaða áhrif á akstur fólks. Við sáum að það væri kannski ekki rosalega raunhæft, þegar horft er til þess að hægt væri að gera einfalda breytingu; að hætta að skilgreina vímuefnaakstur sem akstur með niðurbrotsefni ólöglegra vímuefna í þvagi og skilgreina hann þess í stað sem akstur með niðurbrotsefni ólöglegra vímuefna í blóði. Grundvallarmunur þar á og mjög mikilvægur munur. Ég styð auðvitað heils hugar þessa breytingu, enda tók ég þátt í því að leggja hana til með þessari þriðju tillögu af 12 sem starfshópurinn skilaði frá sér. Mér finnst það mjög jákvætt.

Nú ætla ég að leyfa mér að þreyta aðeins hv. þingmenn með ræðu sem ég flutti kannski á röngum tíma í andsvörum áðan. Nálgun Íslands og fleiri þjóða á vímuefni er mér afskaplega torskilin og reyndar er ég þeirrar skoðunar að samband samfélagsins við vímuefni sé afskaplega sjúkt, sé ofboðslega óhollt, ekki bara sambandið við þá hugmynd að fólk noti einhver efni sem hafi áhrif á heilastarfsemi. Það þykir í sjálfu sér eðlilegt. Íslendingar hafa notað áfengi eins lengi og þeir hafa skrifað sögur um sjálfa sig og munu væntanlega gera það lengur. En þegar það koma önnur efni sem eru jafnvel sannarlega ekki jafn skaðleg og áfengi þá fríkar samfélagið út og er skyndilega reiðubúið til að gera alls konar hluti sem það væri ekki annars reiðubúið til, eins og t.d. að dæma fólk fyrir brot sem það hefur einfaldlega ekki framið. Þá er samfélagið allt í einu til í slíkar lausnir og vasast í friðhelgi fólks, til í að hlera miklu oftar og ganga miklu lengra á réttindi fólks þegar komin er upp þessi hatursmenning sem hefur einkennt samband samfélagsins við vímuefni og vímuefnaneytendur áratugum saman. Það er aðeins að skána með tímanum sem betur fer og kominn tími til.

Við það að taka þátt í umræðunni og renna yfir þetta frumvarp þá tók ég eftir því, sér í lagi í ræðu hæstv. ráðherra, að norska leiðin fyrrnefnda sem við höfðum skoðað í téðum starfshópi er innleidd í lögin, a.m.k. að því leyti að sett eru viðmið fyrir sljóvgandi og örvandi lyf. Ég tel það rétta leið, höfum það alveg á hreinu, ég er hlynntur báðum breytingunum sem finnast í 49. gr. og 50. gr. frumvarpsins. En bara við að ræða þetta þá velti ég fyrir mér hvers vegna í ósköpunum við lítum eitthvað öðruvísi á ólögleg vímuefni en lögleg vímuefni í umferðarlögunum, eins og áfengi sé ekki vímuefni. Á hvaða hátt er það ekki vímuefni? Hvað er það sem ólögleg vímuefni gera sem áfengi gerir ekki? Veldur áfengi ekki fíkn? Veldur það ekki heilsubresti, líkamlegum sem andlegum? Veldur það ekki ofbeldi? Veldur það ekki geðveiki, geðsjúkdómum, splundrar það ekki fjölskyldum? Leggur það ekki líf fólks í rúst? Veldur það ekki dauða?

Virðulegi forseti. Jú, áfengi er jafn mikið dóp og hvað annað. Það hefur þennan undarlega menningarlega sess, væntanlega vegna þess að við höfum neytt þess svo ofboðslega lengi og menningin okkar þekkir jú áfengi tiltölulega vel. Flest fólk veit hvað tremmakast er, fólk veit hvað þynnka er, fólkið hefur einhver persónuleg viðmið um hvað sé of mikið í partíi, við hvaða félagslegu aðstæður það er við hæfi að neyta þess o.s.frv. Meira að segja það er breytilegt og, vel á minnst, sem betur fer.

Ég velti fyrir mér hvers vegna við viljum hafa þetta aðskilið. Það eru viðmið í lögunum um það hversu mikið áfengi megi vera í blóði ökumanns áður en við segjum að hann sé óhæfur til að aka. Að sama skapi komum við hér upp og erum öll sammála um að skilaboðin eigi að vera þau að við séum allsgáð þegar við keyrum. Fullur samhugur um þetta. Enginn stendur hér upp og mótmælir en samt viljum við hafa þessi viðmið um þetta ótrúlega hættulegu vímuefni, þegar það er meira að segja algengast og vinsælast. Er það ekki svolítið skrýtið, virðulegi forseti? Ættum við ekki í raun og veru að vera með langströngustu lögin gegn því vímuefni sem er langalgengast, langlíklegast að fólk noti og finni sér einhverjar afsakanir fyrir að það geti fengið sér smá af og síðan keyrt heim?

Þetta eru bara vangaveltur en ég ætla að treysta hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara aðeins yfir þessi mál, jafnvel þótt Píratar hafi reyndar ekki nefndarmann í þeirri nefnd en við höfum afskaplega duglegan áheyrnarfulltrúa.

Ég vil bara segja að lokum, vegna þess sem ég tók eftir í svörum hv. þingmanna áðan, að ekkert af því sem ég er að segja hérna er til þess að draga úr alvarleika vímuefnaaksturs, ekki neitt. Þvert á móti er ég að segja að við ættum kannski að vera jafn hörð gagnvart akstri undir áhrifum áfengis en þetta sturlaða samband sem samfélagið hefur við áfengi og önnur vímuefni virðist fyrirbyggja það. Ég vildi hafa þetta algerlega á hreinu því ég veit að þegar svona hlutir eru ræddir hreinskilnislega og opinskátt þá er stutt í það að fólk fari að telja mann vera að réttlæta eitthvað sem maður er ekki að réttlæta. Samanber það að samfélagið er stundum alveg til í að dæma fólk fyrir eitthvað sem það er einfaldlega ekki sekt um. Það er rangt. Við eigum ekki að gera það og ég fagna því að í þessu frumvarpi komi fram alla vega risastórt stökk í áttina að því að hætta því.