149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom í lokin ágætlega orðum að því að í umræðum um þetta þyrfti að ítreka og draga mjög skýrt fram hvað væri verið að segja og hvað ekki þegar hreinskiptin umræða og opin á sér stað um akstur undir einhvers konar áhrifum, hvaða nöfnum sem þau kunna að nefnast. Þess vegna langaði mig að eiga aðeins þetta samtal við hv. þingmann. Ég verð að játa að ég skildi ekki alveg hver tillaga hv. þingmanns væri. Ég skil hv. þingmann þannig að hann vilji leggja að jöfnu akstur undir hvers kyns áhrifum. Í þessum frumvarpsdrögum eru sett mörk varðandi það hver áhrifin mega vera þegar kemur að áfengi sem ekki eru þegar kemur að þeim vímuefnum sem samfélagið og við hér segjum enn að séu ólögleg.

Ég myndi halda þá, virðulegur forseti, að við því væru til tvær lausnir, annaðhvort að setja mörk við akstri undir áhrifum annarra efna sem hafa áhrif í för með sér eða hafa engin mörk þegar kemur að áfengi. Nú erum við í þeirri stöðu hér að við getum komið með okkar tillögur og fært mál í þá átt sem við viljum, bæði í þingsal og svo þau okkar sem sitja í viðkomandi nefndum. Hvor leiðin vill hv. þingmaður að verði farin? Eða misskil ég algjörlega?