149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minntist stuttlega á það í ræðu minni en fór ekki ítarlega út í það. Þegar sá starfshópur var að störfum sem ég tók þátt í um endurskoðun vímuefnastefnunnar var ég þeirrar skoðunar að við ættum að fara norsku leiðina. Hún er samt ákveðnum annmörkum háð, sér í lagi því að þá þarf auðvitað að fara að finna út öll þessi viðmið fyrir svefninn. Þau eru ekkert endilega alltaf þekkt, sérstaklega ekki vegna þess að það koma ný og ný efni.

Það eru ákveðnir innviðir á bak við það, þekkingarinnviðir sem þarf til þess að fara þá leið almennilega. Í fullkomnum heimi, þar sem við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af mannafla eða þekkingu eða því að halda þekkingunni við, myndi ég vilja fara þá leið, eins og ég vildi í starfshópnum, þ.e. þannig að mörk væru fyrir öll vímuefni. Eins og ég segi væri það í fullkomnum heimi.

Það kemur alveg skýrt fram að það er ekki einfaldlega eftir 1‰ sem hægt er að segja: Núna er viðkomandi óhæfur um að stjórna bíl eða núna ekki. Þess vegna þurfum við að draga línuna einhvers staðar þar sem við erum tiltölulega örugg og það er ekkert endilega hlaupið að því. Í ljósi þess sem og þess að við búum ekki í fullkomnum heimi er ég ekkert mótfallinn þeirri leið sem er farin í 50. gr., að vímuefnaakstur sé skilgreindur sem akstur með niðurbrotsefni ólöglegra vímuefna í blóði.

Ég myndi vilja endurskoða reynsluna af því eftir t.d. 10–20 ár, sjá hvernig það fer. Mér finnst við ekki mega hafa dómsmál þar sem allir vita að viðkomandi er saklaus en vegna lagatæknilegrar skilgreiningar er viðkomandi dæmdur sekur eins og hefur gerst. Það er aðalviðfangsefnið.

Mér finnst þetta ekki alveg klippt og skorið, ég myndi (Forseti hringir.) vilja fara norsku leiðina alla leið í fullkomnum heimi. Mér finnst að sama skapi að í grunninn eigi það sama að gilda um öll vímuefni, óháð því hvort þau eru lögleg eða ólögleg.