149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:49]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég játa að ég er enginn sérfræðingur í þessum efnum. Kannski er rétt að taka fram að það myndi klaga mjög lítið upp á mig ef það væru nákvæmlega engin mörk við nokkurs konar áhrifum undir akstri. Eins og ég skil það, og hefur svo sem verið komið inn á í þessari umræðu áður, eru 0,2‰ eins nálægt því og við komumst því að vera með það sem heitir á ensku, ef ég fæ að sletta því, virðulegur forseti, með leyfi þínu, „zero tolerance“, að við komumst ekki öllu neðar en það.

Hv. þingmaður kom ágætlega inn á það í ræðu sinni hver afstaða okkar sem samfélags er gagnvart áfengi. Hvað sem okkur finnst um það er erfitt að horfa fram hjá þeirri menningu sem hefur ríkt með manninum, að við höfum ákveðna afstöðu gagnvart neyslu áfengis sem við höfum ekki gagnvart öðrum efnum sem koma okkur í vímu.

Eitt annað með áfengi er að áhrif þess eru tiltölulega þekkt. Mælingin er þannig að það er tiltölulega auðvelt að komast að henni. Mér finnst liggja undir að hv. þingmaður horfi sérstaklega á einhver ein vímuefni umfram önnur. Við erum að horfa á ný vímuefni koma fram, nánast í hverri viku, hverra áhrif við vitum ekki, ekki almennt og hvað þá á aksturslag.

Þess vegna er ég að velta fyrir mér hvernig eigi að setja einhver mörk þegar kemur að akstri undir áhrifum þeirra vímuefna sem eru kannski ekki til þegar við eigum þessar samræður í dag. Eitt hlýtur að þurfa að ganga yfir öll vímuefni.