149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:54]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvernig maður segir það á ensku. [Hlátur í þingsal.] En ég vil þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir prýðisræðu. Ég hjó eftir því að honum var mikið niðri fyrir þegar hann var að ræða um áfengi versus vímuefni og það að aðskilja það einhvern veginn eða líta það öðrum augum í þessu frumvarpi og í umferðarlögunum.

Ég man eftir því að árið 2015 eða um það leyti var hérna varaþingmaður. Þá var verið að ræða mál um að afglæpavæða neyslu vímuefna. Ég tók þátt í þeirri umræðu vegna þess að ég er alveg sammála því að það sé gott skref í mannréttindum að afglæpavæða neyslu vímuefna. Var ég einn af fáum sem var sammála Pírötunum í því. En það er annað mál.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í það, af því að hann getur sérstaklega um það í ræðu sinni og eins í andsvarinu hér á undan. Fannst mér koma fram margt af því sem ég var að velta fyrir mér. Alkóhól er alkóhól, það mælist í blóði og svo mælist eitthvað annað en alkóhól í blóði þegar um vímuefni er að ræða. Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að hægt væri að greina þarna á milli svo einfalt sé í þessu efni? Ég skil alveg hvað þingmaðurinn er að fara.