149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að fagna sérstaklega orðum hv. þingmanns í lokin, fólk sem notar ólögleg vímuefni er ekkert verra en annað fólk. Jú, vissulega er það yfirleitt væntanlega að brjóta lög. Það er, meðan ég man, strangt til tekið ekki bannað að neyta ólöglegra vímuefna, það er strangt til tekið bannað að hafa þau í fórum sínum óháð því hvort það eru neysluskammtar eða ekki, svona lagatæknilegt atriði.

En mér finnst þetta ofboðslega mikilvægur punktur vegna þess að ég held ekki að við myndum sætta okkur við það í fleiri ár, að það væri þekktur galli í íslenskum lögum sem gerði saklaust fólk sekt um eitthvað sem það framdi ekki nema vegna þess að samfélaginu finnst í lagi það álit að vímuefnaneytendur séu sjálfkrafa verra fólk og að vímuefnaneytendur eigi ekki að vera með í samfélaginu. Auðvitað er það ekki þannig.

Og fyrst við erum að tala um umferðarlög má líka minna á að þetta eru ekki almennar leiðbeiningar um hvað er heilsusamlegur lífsstíll eða hvort fylgja eigi lögum eða ekki. Hérna erum við að tala um umferðaröryggi og við eigum að nálgast málið út frá því afmarkaða sjónarmiði.

Jú, fókusinn er vissulega í rétta átt, bæði hvað varðar herðingarnar á refsingum fyrir akstur undir áhrifum, og sömuleiðis varðandi það að laga þann annars hvimleiða galla sem hefur vond áhrif á mannréttindi fólks, eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan.

Mér finnst afskaplega mikilvægur punktur að við ruglum þessu tvennu ekki saman; hvað okkur finnst um vímuefni eða vímuefnaneytendur eða vímuefnaneyslu annars vegar og hins vegar hvernig við styrkjum öryggi fólks í umferðinni gagnvart allri þeirri vá sem þar er að finna, þar á meðal vissulega þeim óskunda sem við eigum að útrýma, sem er akstur undir áhrifum vímuefna sem hafa neikvæð áhrif á akstur hvort sem þau eru lögleg eða ólögleg, vinsæl eða óvinsæl eða hvað.