149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[18:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið einkar áhugaverð umræða í dag um frumvarp til umferðarlaga sem við erum að fjalla um í 1. umr., 120 blaðsíðna rit sem fæstir hafa nú lært utanbókar, ef marka má orð þeirra þingmanna sem hafa komið hingað upp.

Við erum fyrst og fremst að tala um umferðaröryggi og þess vegna skilur maður nú eitthvað af hverju er verið að ræða um akstur undir áhrifum. Ætla ég ekki að eyða löngum tíma ræðu minnar í það en velti þó upp þeim þætti er varðar umferðaröryggi og akstur þegar fólk er að drekka kaffi eða að setja á sig var varalit eða jafnvel að setja á sig maskara eins og maður sér stundum undir stýri. Það má velta fyrir sér hvort ekki þurfi að tilgreina ýmislegt svona líka, ef ekki í lögum þá mögulega reglugerðum, að það megi ekki borða ís og aka bíl á sama tíma, drekka heitt kaffi eða setja á sig varalit.

Það eru nokkur önnur atriði sem mig langar að koma inn á er varða frumvarpið. Fyrst um umferðaröryggi. Ég fagna því sérstaklega að bæði gangandi vegfarendum sem og hjólandi er gefið aukið vægi. Það verður að teljast mjög ánægjulegt því að við erum jú að reyna að fjölga þeim sem velja þann fararskjóta að fara ýmist hjólandi eða gangandi á milli staða. Ég held að samhliða frumvarpinu ætti að fara í mjög markvissa kennslu og fræðslu, bæði til barna og fullorðinna, varðandi öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Þá er það spurning um umferðarskóla barnanna eða umferðarskóla fullorðinna hvað varðar að fræða alla. Auðvitað er hægt að nota allar þær leiðir sem mögulegt er varðandi rétt gangandi og hjólandi vegfarenda.

Ég tek undir það hrós sem hefur komið hérna fram, og um leið undrun, að nú sé verið að setja í fyrsta sinn í lög ákvæði sem bannar akstur á móti rauðu ljósi. Það verður að segjast eins og er að ég hafði ekki ímyndunarafl til að láta mér detta í hug að það væri ekki nú þegar í lögum, sem segir kannski margt um það þegar þarf að fara að semja ný heildarlög. Þá kemur í ljós að það sem maður hélt að væru augljóslega í lögum hefur bara verið í reglugerðum.

Það eru nokkur ákvæði sem mig langar aðeins að skoða nánar í 108. gr. frumvarpsins er varða haldsrétt í erlendum ökutækjum, eða haldsrétt í ökutækjum. Talað er um að ef ökumaður vélknúins ökutækis er búsettur erlendis og ökutæki þar sem brotið var framið með er skráð erlendis geti lögreglan tekið ökutækið þar til sekt, málskostnaður, gjald, skaðabætur eða iðgjald er greitt. Það sem vakti athygli mína í þessu tiltekna ákvæði, þó að ég skilji ákvæðið mjög vel, þ.e. til að reyna einhvern veginn að tryggja hagsmuni þeirra sem hér eru eftir að tjón hefur átt sér stað eða brot, er það að umrætt ákvæði gildi ekki gagnvart ökumönnum sem búsettir eru í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, nema að því er varðar gjald vegna stöðvunarbrota.

Ég fletti upp í greinargerð með frumvarpinu en sá í rauninni ekki útskýringar á þessu og mér þætti gott að fá að heyra það hjá ráðherra í seinni ræðu af hverju Norðurlöndin eru þarna tekin út fyrir sviga.

Annað vakti athygli mína í 107. gr. frumvarpsins sem varðar akstursbann. Það hljómar svo, með leyfi forseta:

„Lögreglustjóri skal banna byrjanda með bráðabirgðaskírteini að aka hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta samkvæmt punktakerfi […] Akstursbanni skal eingöngu beitt einu sinni á gildistíma bráðabirgðaskírteinis.“

Þetta vakti líka athygli mína vegna þess að ef byrjandi, ungmenni eða eldri, hefur misst bráðabirgðaskírteinið en fær svo að taka réttindi sín aftur með því að sitja aftur þá tíma eftir ákveðinn tíma, og fær þá aftur bráðabirgðaskírteini, væntanlega, en byrjar strax aftur að brjóta af sér: Hvers vegna er það sett inn í lögin að þessu akstursbanni skuli eingöngu beitt einu sinni á gildistíma bráðabirgðaskírteinisins?

Maður veltir fyrir sér: Ef viðkomandi lætur ekki segjast, þarf þá ekki að beita þessu ákvæði oftar? Eða er verið að tala um gildistíma þessa tiltekna skírteinis, sem fellur jú úr gildi og kemur þá nýtt, eða hvað? Hvað er átt við þarna? Mér fannst þetta einhvern veginn ekki alveg nógu skýrt.

Það sem vakti líka athygli mína og mig langar aðeins að velta fyrir mér er það sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason minntist á, það er akstur erlendra borgara. Í 63. gr. frumvarpsins er fjallað um erlend ökuskírteini. Þar kemur fram að ráðherra skuli setja reglur um þau skilyrði sem þeir sem dveljast hér á landi og hafa ekki íslensk ökuskírteini þurfi að fullnægja til að mega stjórna vélknúnu ökutæki. Það eru nýmæli í þessu frumvarpi að ráðherra geti ákveðið að ökuskírteini útgefið í öðru ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gildi einnig eftir að handhafi þess hefur sest að hér á landi samkvæmt nánari reglum. Og með sama hætti geti ráðherra ákveðið að ökuskírteini útgefið í öðru ríki gildi hér á landi, enda séu íslensk ökuskírteini jafnframt tekin gild í því ríki.

Þetta ákvæði vakti óneitanlega athygli mína. Maður veltir fyrir sér hvort ekki þurfi að tryggja að íslensk stjórnvöld gæti jafnræðis þarna, að þetta sé ekki bara: Ef þið leyfið okkur skulum við leyfa ykkur, en engin heimild almennt. Mér finnst þetta ákvæði full óskýrt.

Ef ég skoða svo þær reglur sem nú eru, þ.e. reglugerð um útgáfu ökuskírteina, þá er 29. gr. reglugerðarinnar harla óskýr. Þar er talað um að ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er aðili að EES eða í Færeyjum veiti rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi, en það kemur jafnframt fram að ökuskírteini sem gefið er út í ríki utan EES veiti ekki heimild til að stjórna vélknúnu ökutæki nema skírteinishafi hafi uppfyllt aldursákvæði sem tilgreind eru í reglugerðinni. Í reglugerðinni lítur því út fyrir að allir megi aka með erlent skírteini hér á landi hafi þeir til þess aldur, og auðvitað erlent ökuleyfi. En þetta er alls ekki raunin, a.m.k. ekki með þá sem hafa flutt hingað.

Maður veltir aðeins fyrir sér í þessu sambandi: Hver hefur eftirlit með þessu? Segjum sem svo að hingað komi ferðamaður frá framandi ríki utan EES og leigi hér bílaleigubíl. Má viðkomandi aðili þá aka á sínu erlenda ökuskírteini, en sá sem flytur hingað til lands og ætlar að búa hér má það ekki? Hver fylgist með þessu? Eru það bílaleigurnar sem tryggja þetta eða lögregla? Hver er það sem fylgist raunverulega með þessu?

Ég hef smááhyggjur af því að þetta sé eitthvað sem er ekki alveg virkt í framkvæmdinni í dag og væri mjög gott að fá upplýsingar um þetta, a.m.k. þykir mér þetta ákvæði eins og það er í frumvarpinu ekki nógu skýrt. Auðvitað er þetta reglugerðarheimild til ráðherra sem er mjög opin eins og verið hefur. En maður veltir fyrir sér þessu með að setja í lögin að ef ríki samþykkir okkar íslenska ökuskírteini þá skulum við gera það sama, hvort það tryggi bæði jafnræði og öryggi. Það getur vel verið að einhverjum ríkjum heimsins sé nákvæmlega sama hvort fólk hafi yfirleitt ökuskírteini eða ekki, hvort þau séu íslensk eða ekki. Maður veltir fyrir sér hvort þetta ákvæði þarfnist ekki einhverrar skoðunar.

En ég hlakka til að fá frumvarpið til umhverfis- og samgöngunefndar og hlakka líka til að fylgjast með þeim umsögnum sem mögulega berast.