149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[18:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum drög að nýjum umferðarlögum sem ég fagna mjög að séu komin fram og held reyndar að séu löngu tímabær. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og ágætum embættismönnum hans sem hafa örugglega haft veg og vanda af þeirri vinnu, sem hlýtur að vera æðiviðamikil og flókin í ljósi þess hversu mikinn doðrant er um að ræða.

Ég hef, eins og margir aðrir hv. þingmenn sem hafa talað, ekki lúslesið frumvarpið og treysti hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara vel yfir það. En ég hjó eftir nokkrum punktum í yfirferð minni á frumvarpinu sem mig langar að koma inn á.

Fyrsti punkturinn lýtur að því sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi og fleiri þingmenn hafa komið inn á og varðar erlend ökuskírteini. Tilgreind eru sérstaklega ökuskírteini innan EES og svo Færeyja, væntanlega vegna þess viðamikla samninga sem við höfum gert við Færeyjar, Hoyvíkursamningsins eða einhvers þess háttar. En þá spyr ég: Af hverju ekki Grænland í sömu andránni? Þetta eru oft taldar vinaþjóðir okkar og hvorug tilheyrir EES-svæðinu eða EES-samningnum.

Hitt lýtur að hæfni fólks frá mismunandi heimshlutum og reynslu þess af því að aka við ákveðnar aðstæður og svo á Íslandi. Í frumvarpinu kemur fram að 75% þeirra sem láta lífið í umferðinni hér á landi bíða bana á þjóðvegum í dreifbýli og 50% þeirra sem slasast alvarlega slasast á þjóðvegum í dreifbýli.

Við búum við frekar sérstakt þjóðvegakerfi á Íslandi í samanburði við ýmis önnur lönd. Við höfum því miður séð tiltölulega hátt hlutfall erlendra ferðamanna láta lífið í umferðinni og lenda í alvarlegum umferðarslysum. Ég veit að bílaleigurnar, Samgöngustofa og fleiri aðilar hafa lagt sig alla fram við að auka fræðslu til ferðamanna um það hvernig ástandið er á vegunum. Ég hygg að við gætum jafnvel gert enn betur.

Í 63. gr. frumvarpsins um erlend ökuskírteini, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, segir að í tilfelli ökuskírteina sem gefin eru út utan EES gildi þau skírteini svo lengi sem okkar skírteini gildi í því landi. Eftir því sem ég best veit duga til að mynda ökuskírteini kínverskra ferðamanna hér á landi en við megum ekki keyra í Kína með okkar íslensku ökuskírteini.

Ef þær upplýsingar sem ég hef eru réttar velti ég fyrir mér hvort eitthvert misræmi sé á þarna. Ég ætla ekki að draga einhver ákveðin lönd í dilka og segja að það megi ekki en mér finnst alveg að taka megi þá umræðu hvort einhvers konar kvaðir þurfi að vera um námsefni eða yfirlestur eða fræðslu sem viðkomandi aðilar þurfa að fá áður en þeir fá leyfi til að keyra um landið okkar, í ljósi þess að við erum fyrst og fremst að reyna að auka öryggi vegfarenda.

Þá langar mig að nefna sérstaklega 76. gr. um sjálfkeyrandi ökutæki. Ég fagna því mjög að sú grein sé kominn í umferðarlög og tel það mjög mikilvægt, enda er þetta klárlega framtíðin. Ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara vel yfir þá grein og fullvissa okkur um að þarna séu engar takmarkanir á framþróun á því sviði. Ég sé að farið er ágætlega yfir það í greinargerðinni að þeir sem þetta hafa skrifað telja svo ekki vera og vilja einmitt halda því sem opnustu í reglugerðarheimildum til handa ráðherra, sem ég held að sé mikilvægt. Ég hvet til þess að farið verði sérstaklega yfir þann þátt.

Við höfum töluvert rætt neyslu áfengis og annarra vímuefna og ég tek undir markmið frumvarpsins hvað það varðar. Ég hjó samt eftir því að neita má þeim sem eru háðir notkun ávana- og fíkniefna um ökuskírteini, ef ég skil það rétt. Ég velti fyrir mér hvernig það virkar. Hvernig framfylgjum því ef manneskja er alkóhólisti? Hvernig er hægt að framfylgja því að hún fái ekki ökuskírteini? Mér finnst það áhugavert. Ég veit ekki hvort þetta er breyting frá því sem er í lögunum í dag en ég skil spurninguna eftir fyrir þá sem munu fara yfir málið í nefndinni.

Mig langar líka að nefna eitt, sem ég verð að viðurkenna að ég fann ekki nógu mikið um þegar ég renndi yfir frumvarpið, og það eru umferðarskilti eða umferðarmerkingar. Ég veit að þau hafa viðamikið hlutverk og skipta auðvitað miklu máli en staðreyndin er samt sú að þau geta stundum snúist upp í andhverfu sína. Ég hef lesið áhugaverðar skýrslur um tilraunir til þess t.d. að taka umferðarskilti af gatnamótum og niðurstaðan var jákvæð. Fólk horfist raunverulega í augu og sammælist um það hvernig hlutirnir eigi að ganga fyrir sig.

Hafandi töluverða reynslu af skipulagsmálum minnist ég þess að hafa eiginlega orðið flökurt þegar við þurftum að samþykkja drög að uppsetningu alls konar umferðarskilta í hverfum og senda til lögreglustjóra til samþykktar. Maður varð sjóveikur af því að horfa á þá mynd því að þetta var gríðarlegt magn skilta, í kringum hvert hringtorg og á hverri akrein. Ég verð að viðurkenna að þegar ég renndi yfir frumvarpið áðan fann ekkert um þetta en mér finnst full ástæða til að ræða gildi slíkra merkinga og hvenær þau geta mögulega verið orðin of mörg og jafnvel hindrað aðra umferð, eins og hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur og sýn á þá.

Að lokum langar mig að nefna nokkuð sem er kannski lítils háttar mál. Í 79. gr. er fjallað um öryggis- og verndarbúnað óvarinna vegfarenda og þar á meðal hjálmanotkun barna undir 15 ára aldri. Ef ég skil rétt er verið að færa þetta inn í lögin fyrst núna, áður var það aðeins í reglugerð. Í 3. mgr. segir að lögregla og forráðamenn skuli vekja athygli barna á skyldu samkvæmt 1. mgr., sem er þá hjálmanotkun. Mér finnst forgangsröðunin í setningunni röng, að tala fyrst um þá skyldu lögreglunnar og svo forráðamanna að vekja athygli barna á hjálmanotkun. Ég held að ábyrgðin hljóti að vera fyrst og fremst forráðamanna og að lögreglan sé frekar í eftirlitshlutverki.

Þetta voru þeir punktar sem ég hjó eftir. Ég fagna því mjög að komin sé inn heildstæð endurskoðun á umferðarlögum. Ég tel það löngu tímabært og treysti því að frumvarpið fái vandaða og góða umfjöllun í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.