149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[18:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það er margt undir í umræðunni um frumvarp til heildarendurskoðunar umferðarlaga. En það er eitt tiltekið atriði sem mig langar til að koma inn á sem snýr að 50. gr. sem fjallar um að hér eftir verði grundvöllurinn fyrir því að menn teljist undir áhrifum vímuefna að það komi fram í blóði, en ekki eins og er í dag, að mæling í þvagi geti verið grundvöllur slíks mats.

Við á þingi reynum iðulega að hafa vit fyrir fólki. Forsjárhyggjan er rík í mörgum okkar. Sum okkar tala fyrir sykurskatti svo fólk drekki minna af sykruðum gosdrykkjum eða kaupi sér færri súkkulaðistykki. Menn leggja á kolefnisgjald og hækka það um 50% og síðan fylgja áframhaldandi hækkanir í framhaldinu, allt til að stýra hegðan landsmanna með einum eða öðrum hætti. Um þetta eru auðvitað óteljandi dæmi í því kerfi og regluverki sem við höfum byggt upp á Íslandi.

Það sem mig langaði að nefna í þessu samhengi er 50. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Greinin fjallar um bann við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Er ákvæðið að meginstefnu til í samræmi við 45. gr. a gildandi laga. Þó er lagt til að gerð verði sú grundvallarbreyting frá gildandi ákvæði að mæling á mögulegu magni ávana- og fíkniefna, sem er grundvöllur að ályktun um að ökumaður teljist undir áhrifum slíkra efna og því óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, fari aðeins fram á blóði ökumanns. Verði þannig felld niður tilvísun til þess að mæling í þvagi geti verið nægur grundvöllur í þessum efnum.“

Þetta er allt satt og rétt. En ég held að það þurfi alla vega að vera meðvituð ákvörðun hjá þinginu þegar þar að kemur og í vinnu nefndarinnar að hérna erum við með fyrirbyggjandi „element“ í þessari grein í lögunum eins og þau eru núna, því að þó að færa megi rök fyrir því að neysla vímuefna hafi átt sér stað allnokkru áður en viðkomandi ökumaður er tekinn í próf, væntanlega af lögreglu, er tryggasta leiðin til þess að falli ekki á þessu prófi einfaldlega sú að neyta ekki vímuefna.

Ég ætla ekki svo sem að úttala mig um neina sérstaka afstöðu í þessum efnum núna, en ég held að ef þessi fyrirbyggjandi klásúla verður tekin út úr íslenska regluverkinu þurfi það að vera meðvituð ákvörðun en ekki ákvörðun sem tekin er án ígrundaðrar afstöðu. Því að staðreyndin er sú að í þessum sal eru menn, hvort sem það er gott eða ekki, að reyna að stýra hegðan borgaranna daginn út og daginn inn. Minni ég þá bara á sykurskatt, kolefnisgjöld og annað slíkt, mál sem öll eru því sama marki brennd að vera einhvers lags neyslustýring. En hérna höfum við „element“ sem vinnur gegn neyslu því að hvatinn er auðvitað sá að eiga ekki á hættu einhverjum dögum eftir eiginlega neyslu vímuefna að vera tekinn og efnin greinist í þvagi.

Um aðrar greinar frumvarpsins mun ég hafa fullt af tækifærum til að tjá mig um síðar og vinna að í nefndinni. En mig langaði til að koma þessu sjónarmiði á framfæri í dag.