149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[18:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi sem liggur hér frammi á þskj. 233.

Við framkvæmd á nýjum lögum um útlendinga, nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, hefur komið í ljós að lagfæra, endurskoða og breyta þarf allmörgum ákvæðum laganna svo að framkvæmd þeirra og meðferð mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ. Undir þetta var þingheimur búinn á sínum tíma enda var ljóst að menn þyrftu að sjá hvernig ný löggjöf, sem er umfangsmikil að formi til og efni, myndi virka í framkvæmd. En frumvarp þetta er einn liður í þessu framangreinda og felur í sjálfu sér ekki í sér veigamiklar efnislegar breytingar á lögunum. Frumvarp sama efnis var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram örlítið breytt. Til að bregðast við þeim athugasemdum sem bárust frá Persónuvernd, í umsögn stofnunarinnar til Alþingis undir lok síðasta þings, hafa verið gerðar smávægilegar breytingar á 2. gr. frumvarpsins og athugasemdum við þá grein.

Frumvarpinu er einkum ætlað að lagfæra orðalag og tilvísanir til lagaákvæða, skýra einstök ákvæði sem hafa þótt óljós eða ófullnægjandi og gera málsmeðferð hjá kærunefnd útlendingamála, og við boðun umsækjanda um vernd í viðtal hjá Útlendingastofnun, skilvirkari. Þá eru jafnframt, með hagsmuni barna að leiðarljósi, víkkaðar heimildir stjórnvalda til vinnslu persónuupplýsinga og samkeyrslu upplýsinga er varða börn. Þá eru einnig lagfærðar tilvísanir í ákvæði laga um útlendinga í lögum um Schengen-upplýsingakerfið og tollgæsluyfirvöldum veitt heimild til að hafa beinlínutengdan aðgang að kerfinu.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr. að umfjöllun nefndarinnar lokinni.