149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[18:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í 4. gr. frumvarpsins, nánar tiltekið út í spurningu Rauða krossins á Íslandi sem sendi inn umsögn seinast þegar málið kom hingað inn. Í 4. gr. frumvarpsins virðist vera víkkuð út, eða skýrð skulum við segja, reglugerðarheimild og texta er bætt við reglugerðarheimildina sem fjallar m.a. um áhrif fyrri stjórnvaldsákvarðana á beitingu undanþágna. Rauði krossinn velti því fyrir sér í umsögn sinni um hvaða áhrif gæti verið að ræða.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg skýringar sem fylgja síðari útgáfu frumvarpsins, skýringu sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins, um að átt sé við reglugerðarheimild sem — ég þori varla að útskýra þetta með mínum eigin orðum, ég er ekki viss um að ég skilji þetta. En 3. mgr. fjallar um að hægt sé að falla frá þeirri skyldu að einstaklingur þurfi að vera á landinu til að sækja um. Frá því má víkja ef einhver sanngirnissjónarmið ríkja eða eitthvað í þá átt. Þetta er 3. mgr. sem um ræðir og síðan er reglugerðarheimildin um þessa 3. mgr. Og textanum sem ég nefndi áðan er bætt við þessa reglugerðarheimild, bætt við þann texta sem ég nefndi áðan.

Stutta útgáfan af spurningunni minni er bara: Hvers vegna? Hvers vegna þarf að bæta þessu við þessa reglugerðarheimild, sér í lagi ef forsendurnar fyrir henni eru hinar sömu og gagnvart umræddri 3. mgr.?