149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. 4. gr. frumvarpsins lýtur að því að skýra tímafresti sem koma fram í 2. mgr. 51. gr. laganna sjálfra. Það kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að í framkvæmd hafi skapast óvissa hvað þetta varðar sem þarft er að skýra. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að 50. gr., eins og hún er í dag, 51. gr., 2. mgr., kveður á um að undantekningar c-liðar 1. mgr., sem helst óbreytt, gildi á meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar án áritunar. Þetta hafa menn viljað skýra nánar vegna þess að gild vegabréfsáritun er alla jafna í 90 daga þannig að hér er lagt til að heimild til dvalar, þegar umsækjandi er undanþeginn áritunarskyldu, gildi þar til umsækjandi hefur dvalið 90 daga á Schengen-svæðinu, þ.e. að um þá sem hafa ekki áritunarskyldu gildi ekki aðrar reglur eða um þá sem hafa vegabréfsáritanir.

Svo er kveðið á um og lagt til að undantekningar a- og c-liðar 1. mgr. gildi á meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildra vegabréfsáritana en að Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. lengri heimild til dvalar á meðan umsókn er í vinnslu. Þannig að þetta á að vera til til skýringa.