149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið forláts, ég hef ekki verið nógu skýr í fyrri ræðu og skrifast það alfarið á mig. Ég er að tala sérstaklega um b-lið 4. gr. frumvarpsins þar sem breytt er — nú ætla ég að reyna að hafa þetta rétt hjá mér — 5. mgr. 51. gr. laganna, en þar er að finna reglugerðarheimildina sem varðar 3. mgr., nú 1. mgr. 51. gr. greinar laganna.

Hæstv. ráðherra svaraði ágætlega um a-liðinn en ég ætlaði að spyrja út í b-liðinn og sér í lagi lokin á honum. Þar kemur fram að í stað 3. mgr. í 5. mgr. — til skýringar er 3. mgr. undanþáguákvæðið um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Reglugerðarheimildin er nú þegar til staðar um það ákvæði í 5. mgr. og í lögunum er verið að leggja til að bætt verði við reglugerðarheimildina, að hún varði líka 1. mgr., sem ég tel alveg eðlilegt út frá efni hennar. En þar er bætt við þessum streng, þessum texta, með leyfi forseta:

„Meðal annars um áhrif fyrri stjórnvaldsákvarðana á beitingu undanþága.“

Ég sé ekki enn sem komið er í gögnum málsins, hvorki í greinargerð né annars staðar, hvers vegna þessu er bætt við. Rauði krossinn spurði út í það í umsögn sinni hvers vegna þessu væri beitt og óskaði eftir því að gefin væru einhver dæmi um það undir hvaða kringumstæðum fyrri stjórnvaldsákvarðanir á beitingu undanþágna gætu haft áhrif á mál á síðari stigum. Ég er svolítið að leita eftir upplýsingum um það undir hvaða kringumstæðum slíkar fyrri stjórnvaldsákvarðanir hefðu þau áhrif.