149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Eins og fram hefur komið er frumvarpið lagt aftur fram frá síðasta þingi en þá komu umsagnir til þingsins, eins og hæstv. ráðherra hefur rakið í stuttu máli. Það sem vakti athygli mína er að nefnt er sérstaklega í greinargerð frumvarpsins umsögn Rauða krossins á Íslandi annars vegar og Persónuverndar hins vegar. Við athugasemd Persónuverndar er brugðist bara ágætlega, eftir því sem ég fæ best séð. Nefnt var lagatæknilegt atriði sem var lagfært og allt í góðu með það og ríkir samhugur um að sú upplýsingamiðlun og nýting sé nauðsynleg og góð til verndar hagsmunum barna. Ég geri engar athugasemdir við það.

Hins vegar eru engar tillögur frá Rauða krossinum í nýrri útgáfu af frumvarpinu. Mér finnst það að hluta til skrýtið, og að hluta til ekki skrýtið vegna þess að stundum er ráðherra og stofnanir úti í bæ einfaldlega ósammála og allt í góðu með það. En þarna eru líka tillögur sem mér þykja mjög hóflegar. Rauði krossinn bendir á vandamál sem þurfi ekki að vera til staðar en ég finn ekki rökstuðning í greinargerð í nýrri útgáfu frumvarpsins fyrir því hvers vegna þeim tillögum var hafnað. Og jafnvel þótt það geti einfaldlega verið efnislegur ágreiningur milli hæstv. ráðherra og Rauða krossins þykja mér rökin sem fylgja frumvarpinu samt ekkert sérstaklega sterk.

Er þá við hæfi að byrja á 1. gr. frumvarpsins. Þar hefur Rauði kross Íslands áhyggjur af því að sú breyting sem þar er farið í kunni að leiða til óvandaðrar málsmeðferðar í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Það er alveg þess virði að nefna að Rauði krossinn hefur þokkalega reynslu, sennilega mesta reynslu á landinu, af því að fara með mál umsækjenda um alþjóðlega vernd og veit alveg nákvæmlega hvað hann syngur. Þarna er um að ræða að formanni kærunefndar útlendingamála er einum falið að úrskurða í málum þegar upp kemur vafi um hvort mál varði tvær greinar í lögunum. Ég ætla að reyna að forðast að fara í flóknar útskýringar þannig að erfitt sé að fylgjast með, en hér er sem sé um að ræða 36. og 37. gr. laganna sem varða mál um alþjóðlega vernd og því um líkt, flóttamenn og annað. Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að þetta muni auka skilvirkni og bæta starfið að því leyti, sem er virðingarvert markmið út af fyrir sig, en mér finnast hins vegar mótrökin gegn því, að þetta valdi óvandaðri málsmeðferð, ekki alveg standast vegna þess að þau eru í meginatriðum þau að rannsóknin verði eftir sem áður sú sama. Ég sé ekki alveg hvernig hægt er að spara tíma með því að láta einn ákveða eitthvað sem annars fleiri ákveða. Ég sé ekki alveg hvernig það á að virka. Mér finnst erfitt að samþykkja þau rök hvað varðar 1. gr. og hef því enn þá sömu áhyggjur og Rauði krossinn.

Það er ekki í fyrsta sinn sem sú hugmynd hefur komið upp og verið lögfest að formaður ákveði einn eitthvað um einhver mál. Því mótmælti Rauði krossinn líka. Minn skilningur á málinu er sá að þær áhyggjur séu á rökum reistar.

Eðli málaflokksins er slíkt að við höfum undanfarin ár fengið þokkalega mikið af umsóknum, meira en við erum vön, ekki síst vegna ástandsins í heiminum. Við eigum ekki að búast við öðru. Ofboðslega mikill þrýstingur hefur verið á að reyna að auðvelda leiðina að því að taka einhverja ákvörðun, leiða fram einhverja niðurstöðu. Áhyggjur mínar og fleiri í því sambandi eru að leiðin að nei-inu er einfölduð. Það er gert einfaldara að leiða fólk í neyð og koma því úr landi. Það einkennir svolítið viðbrögð Íslands í sambandi við Dyflinnarreglugerðina að það virðist vera helsta markmiðið að reyna að skófla þessu vandamáli eitthvert út fyrir landsteinana, jafnvel með þeim afleiðingum að það brjóti hreinlega í bága við yfirlýst markmið, sem er að stytta málsmeðferðartíma og spara pening. En Dyflinnarmálin eru ekkert einföld í sjálfu sér og stofnanir eins og Rauða krossinn munu alltaf berjast fyrir réttindum skjólstæðinga sinna. Það er ekkert sjálfgefið að hægt sé að bera fyrir sig Dyflinnarreglugerð og að málið fari úr landi, vegna þess að við búum við réttarríki. Það þýðir að fólk nýtir alla möguleika sem það hefur til að fá málum sínum framgengt. Það kostar peninga og tíma hjá kærunefnd, og reyndar ekki svo mikið hjá dómstólunum af ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér en eru ærið tilefni til að ræða, vek ég athygli á.

Mér finnst 1. gr. frumvarpsins endurspegla svolítið að Ísland hefur tilhneigingu til að skófla hlutum yfir í neyð. Ég kalla eftir betri rökstuðningi fyrir því. Mér finnast rökin fyrir þessari breytingu ekki standast alveg miðað við forsendurnar sem koma fram í greinargerð frumvarpsins.

Það er þess virði að nefna að frá fyrri framlagningu leggur Rauði krossinn fram tillögur að orðalagsbreytingum í umsögn sinni. Það er umsögn sem ég geri ráð fyrir að verði efnislega eins í þetta sinn nema eitthvað bætist við vegna þess að ekki er brugðist við neinum athugasemdum frá þeim. Mér þykja þessar orðalagsbreytingar bara mjög hóflegar og ættu að geta stuðlað að sátt um málið án þess að rökræða þurfi að það mikið frekar. Ein af þeim athugasemdum sem lagðar eru fram til breytingar á við um 3. gr. frumvarpsins. Hún fjallar um viðtölin sem umsækjendur hafa kost á, þeir hafa rétt á viðtali um mál sitt við kærunefnd útlendingamála. Í frumvarpinu er seinna viðtalið tekið burt. Rauði krossinn telur að þarna sé þrengt um of að. Við þetta tilefni er alveg þess virði að nefna að það þurfa ekkert alltaf að vera tvö viðtöl. Ég held að séu allir sammála um það. Stundum vita skjólstæðingarnir ekki sjálfir hvers vegna þeir ættu að mæta aftur þegar þeir hafa þegar lýst vilja sínum. En Rauði krossinn kemur fram með tillögu að orðalagi sem nær því markmiði sem greinin stefnir að og getur um leið komið í veg fyrir þær áhyggjur sem hann lýsir.

Hið sama er að segja um gagnrýni Rauða krossins á 4. gr. frumvarpsins og a-lið 6. gr. frumvarpsins. Þar leggur Rauði krossinn til að hægt sé að setja ákveðnar þrengingar inn í ákvæðin þannig að þau valdi ekki þeim áhyggjum sem Rauði krossinn hefur af þeim tilteknu ákvæðum. Hvergi er rökstuðningur fyrir því hvers vegna þær leiðir eru ekki farnar, en þær eru tiltölulega einfaldar. Ég ætla að nefna sérstaklega þá sem fjallar um a-lið 6. gr., en Rauði krossinn lagði til að sambærilegur fyrirvari yrði settur um 4. gr. frumvarpsins. Í a-lið 6. gr. frumvarpsins — ég óska eftir dálítilli þolinmæði þannig að ég hafi allt alveg rétt — er tilgreint að við bætist nýr málsliður í 1. mgr. 101. gr. laganna svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Óafgreiddum umsóknum um dvalarleyfi skal þá vísað frá.“

Það er hugsað til þess að fylla upp í lagalegan vafa um það — ég veit ekki hvaða orð ég á að nota, ég vil ekki segja tómarúm, en það þykir ekki skýrt í lögunum hvað á að gera við óafgreiddar umsóknir um dvalarleyfi þar sem fólki hefur verið vísað frá landi, flutt brott. Og þess vegna er þessi breyting lögð til, og vinnslu óafgreiddra umsókna um dvalarleyfi skuli þá hætt.

Rauði krossinn hefur áhyggjur af því að það sé kannski aðeins of þröngt og leggur því til eftirfarandi orðalag, virðulegi forseti, með leyfi forseta:

„Vinnslu óafgreiddra umsókna um dvalarleyfi skal þá hætt nema mannúðarsjónarmið, friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu eða ríkar sanngirnisástæður leiði til annarrar niðurstöðu.“

Það finnst mér rosalega hóflegur fyrirvari. Ég sé ekki alveg hvers vegna ekki má bara setja þetta þarna inn til þess að róa aðeins helsta sérfræðinginn í málaflokknum gagnvart þessu atriði. Ég legg til að við tökum svolítið mark á því þegar Rauði krossinn talar, ekki bara vegna þess að hann hefur mestu reynsluna af þessum málum, heldur líka vegna þess að sú stofnun nýtur óskoraðs trausts, mér að vitandi, í þessum málaflokki sem og öðrum, til að vera ekki almennt að búa til vandamál úr engu.

Það er fleira sem er alveg þess virði að ræða en ég er svo heppinn að njóta þess sérlega heiðurs að vera meðlimur allsherjar- og menntamálanefndar og mun í þetta sinn geta farið betur yfir málið í nefnd.

Þarna eru nokkrar spurningar þótt þetta sé í sjálfu ekki mjög yfirgripsmikið mál miðað við útlendingamál almennt. Mér fnnst rétt að tæpa aðeins á þessu og nefna sér í lagi athugasemdir Rauða krossins í þeirri von að nefndin geti þá komið til móts við þær. Þær fara ekki gegn markmiðunum sem verið er að reyna að ná, sem eru í sjálfu sér ágæt í grunninn jafnvel þótt okkur geti kannski greint á um nákvæmlega hvernig við náum þeim markmiðum án þess að fórna vandaðri málsmeðferð eða einhverju slíku. Það er ákveðin tilhneiging til þess að fórna vandaðri málsmeðferð, að mínu mati og fleiri, þegar við erum að reyna að stytta tímann, draga úr álaginu án þess að kosta neinum peningum til.

Ég held ég láti þetta gott heita í bili, virðulegi forseti, en hlakka til að vinna málið betur í nefnd.