149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðurnar um frumvarp mitt sem hér er til umfjöllunar. Mig langar að koma inn á nokkur atriði sem tveir hv. þingmenn sem tóku til máls nefndu og rifja það upp að þetta frumvarp var lagt fyrir þingið undir lok síðasta þings. Það var auðvitað skammur tími til þinglegrar meðferðar, en allt að einu fór málið til umsagnar og einhverrar meðferðar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Mig minnir að það sé rakið einmitt í frumvarpinu að það hafi borist 32 umsagnir um málið. En mér er ekki kunnugt um það enn sem komið er hvort menn hafi tekið gesti inn á fund nefndarinnar. Ráðuneytið fór yfir allar umsagnirnar um frumvarpið. Eins og fram kemur í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi var tekið tillit til athugasemda sem bárust frá Persónuvernd, ekki síst í ljósi þess að frá því að frumvarpið var lagt fram síðast hafa tekið gildi ný persónuverndarlög, það var m.a. þess vegna sem tekið var tillit til þeirrar umsagnar.

Umsögn Rauða krossins sem var í nokkrum liðum var auðvitað skoðuð mjög ítarlega. Ég vil nefna það líka að þegar hið fyrra frumvarp var lagt fram, þegar það var í vinnslu í dómsmálaráðuneytinu, var það kynnt Rauða krossinum í samræmi við það verklag sem við höfum haft í þessum málum núna um þó nokkurn tíma, við erum í góðu samstarfi við Rauða krossinn og aðra sem koma að þessum málum og eigum m.a. reglulegt samráð og reglulega fundi einu sinni í mánuði, ef ekki oftar, með þessum stofnunum til þess að fara yfir reynsluna af löggjöfinni og fáum ábendingar frá öllum þessum aðilum um nauðsynlegar breytingar á löggjöfinni. Hið fyrra frumvarp var borið undir Rauða krossinn og í vinnslu. Rauði krossinn sá ekki ástæðu til að senda inn formlega umsögn um það mál á þeim tíma, en var kynnt efni frumvarpsins allt að einu. En gott og vel, menn fyrirgera svo sem ekki rétti sínum að koma með umsagnir um mál á síðari stigum málsins og það gerði Rauði krossinn og farið var yfir hana sérstaklega.

Mér finnst gæta einhvers misskilnings hér samt sem áður um réttarfarið í þessu hvað varðar umsagnirnar. Jafnvel þó að menn sendi umfangsmiklar umsagnir er ekki þar með sagt að lagafrumvarp taki skilyrðislaust þeim breytingum sem umsagnaraðilar óska eftir. Umsögn Rauða krossins ekki frekar en annarra umsagna í þessu máli eða öðrum leiðir ekki sjálfkrafa til breytinga á frumvarpi. Það hefur ekki verið gert heldur var þetta skoðað sérstaklega og þau atriði sem Rauði krossinn benti á hafa verið reifuð og rædd við Rauða krossinn þannig að sjónarmiðum hans hefur verið svarað að nokkru leyti einmitt í þessari greinargerð. Ég vísa um það til athugasemda með frumvarpinu.

Ég vil þó sérstaklega nefna athugasemdina er lýtur að heimild formanns og varaformanns til þess að úrskurða í tilteknum málum, einir, án þess að kærunefndin sem heil stjórn, í heild sinni, komi að því. Það er gert í samræmi við ábendingar frá kærunefndinni sjálfri og með vísan til framkvæmdar t.d. erlendis og með vísan til þeirra ríku hagsmuna sem allir umsækjendur hafa af skilvirkri afgreiðslu þessara mála. Það er mikilvægt að hafa það í huga eins og mér heyrðist nú reyndar annar hv. þingmanna sem tók til máls, Helgi Hrafn Gunnarsson, nefna. Hann nefndi að þetta ætti ekki að bitna á rannsókn þessara mála enda er það stofnunin sem slík, kærunefnd útlendingamála, sem fer með þessar rannsóknir.

Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir velti því hins vegar fyrir sér hvort þess væru einhver dæmi að formanni einum væri falið að úrskurða með þessum hætti, í þessu tilfelli formanni og varaformanni. Ég man nú bara í fljótu bragði, af því við erum að ræða útlendingalögin, að það er einmitt í 2. mgr. 8. gr. í þeim lögum að formanni er heimilt að úrskurða í tilteknum málum einum. Þannig að dæmin eru nú til. Ég þori ekki að fullyrða hvort þau séu fleiri. En þetta er gert í þágu t.d. umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Það er mikilvægt líka að hafa það í huga að þessi heimild formanns og varaformanns lýtur ekki að þeim þáttum sem kannski mikilvægastir eru þeim sem sækja hér um alþjóðlega vernd. Það er ákvörðun um alþjóðlega vernd. Hún verður alltaf í höndum þriggja manna nefndar. Ég vil nefna bara til samanburðar að í Noregi eru einungis 2% mála um dvalarleyfi sem eru úrskurðuð hjá allri sambærilegri nefnd þar, en hátt í 90% mála eru afgreidd af formanni, einum af þeim mörgum formönnum sem þar starfa í sambærilegri kærunefnd.

Þetta vildi ég sagt hafa til þess að svara einhverju sem hér hefur komið fram. En ég vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði þetta mál og kalli aftur eftir umsögnum að sjálfsögðu, fái til sín gesti til að ræða þetta. Eins og ég sagði í framsögu minni þá er þetta frumvarp að miklu leyti lagatæknilegs eðlis. Það eru ákvæði þarna sem eru mjög til hagsbóta fyrir börn og ég verð að segja að mér þótti miður að þetta mál hefði ekki verið afgreitt í sumar í því ljósi, enda held ég að það séu ekki miklar efnislegar breytingar að öðru leyti sem felast í þessu heldur er málið eingöngu sett fram til að auka skilvirkni og skýra óljós lagaákvæði gildandi laga.