Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir umfjöllun hennar hér öðru sinni. En vegna orða hæstv. ráðherra, þar sem hún vísaði í orð mín um fordæmi fyrir því að formenn eða varaformenn einir geti úrskurðað í málum, var ég auðvitað, bæði nú og þegar ég spurðist fyrir í ráðuneytinu, að spyrjast fyrir um fordæmi í öðrum nefndum, öðrum kærunefndum, öðrum sjálfstæðum úrskurðarnefndum eða þar sem ekki eru sjálfstæðar úrskurðarnefndir hjá ráðuneytum þar sem verið er að kveða upp úrskurði. Ég var ekki að spyrja hvort þessum tilteknu aðilum hefðu áður verið veitt þessi leyfi í útlendingalögum heldur fordæmi í öðrum nefndum.

En fyrst ég er komin hingað upp aftur þá langar mig líka aðeins að velta upp einni spurningu sem varðar breytingar á persónuverndarlöggjöfinni. Það kemur fram í greinargerðinni að það kunni að vera að aftur þurfi að eiga sér stað breytingar vegna þess að nú hefur persónuverndarlögunum verið breytt. Þá veltir maður fyrir sér hvers vegna verið sé að leggja til breytingar núna en boða jafnframt aftur breytingar ef þetta stenst ekki hin nýju persónuverndarlög.