149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég bið forláts ef ég hef ekki hoggið eftir því að hv. þingmaður var að vísa til annarra nefnda, en mér fannst samt rétt að vekja athygli á þessari heimild formannsins, samkvæmt 8. gr. núgildandi útlendingalaga, til að úrskurða einn í máli.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég þekki ekki hvort það kunni að vera annars staðar í öðrum nefndum. Ég bendi hins vegar á að jafnvel Hæstiréttur, skipaður svo og svo mörgum hæstaréttardómurum á hverjum tíma, hefur heimild til að kveða ekki upp dóma í heilu lagi. Það hefur reyndar verið gagnrýnt og kannski horfir það til bóta með minnkandi málaálagi réttarins. Það er æskilegt að slíkir úrskurðaraðilar, eins og dómstóll í sjálfu sér er, komi saman til að gefa fordæmisgefandi mynd af stöðu á réttarástandinu, kveði upp í heilu lagi sína dóma. Þar hefur m.a. verið vísað til skilvirknisjónarmiðanna, það að fela Hæstarétti að kveða upp dóma í tilteknum deildum.

Ég tek þetta sem dæmi þótt það sé ekki sambærilegt, en þá væri æskilegast að öllu leyti kannski að menn kvæðu allir upp, stjórnvald á hverjum tíma, einróma úrskurði. Það er hins vegar ekki raunhæft og jafnvel útilokað miðað við þann málafjölda sem er og hagsmunirnir kannski heldur ekki svo gríðarlega miklir sem eru undir heldur miklu frekar afgreiðsla einfaldra stjórnsýslumála.

Hvað persónuverndarsjónarmiðin varðar er það bara nefnt þarna, og það er rétt, að það kann að þurfa að koma til frekari endurskoðunar á þessari löggjöf eins og, leyfi ég mér að fullyrða, í nánast allri annarri löggjöf sem lýtur að viðkvæmum persónuupplýsingum manna. (Forseti hringir.) Menn eru þessa dagana og þessi dægrin að endurskoða löggjöf heildstætt með tilliti til nýrra persónuverndarlaga.