149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frumvarpið er ágætlega unnið, held ég, og mér finnst ástæðulaust hjá hv. þingmanni að gera því skóna að það sé illa unnið vegna þess að verið er að leggja til breytingar á meðferð persónuupplýsinga barna sem mjög er kallað eftir. Það er mjög nauðsynlegt, út frá hagsmunum barna sem eru í stöðu hælisleitenda hér á landi, að heimilt sé að miðla persónuupplýsingum um þau á milli barnaverndaryfirvalda til þess að gefa stjórnvöldum glögga yfirsýn yfir hagsmuni þeirra svo að hægt sé að taka sem nákvæmustu og bestu ákvörðun í málefnum þeirra. 2. gr. frumvarpsins lýtur að því að verið er að veita heimild til að samkeyra og miðla persónuupplýsingum til að tryggja hagsmuni barns við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun. Ég verð að segja að ég er svolítið hissa á því að hv. þingmaður sem telur sig talsmann allra hælisleitenda og sérstaklega barna, og oft umfram alla aðra sem eru í þessu húsi, skuli leggja það til hér að beðið verði með þessa tilteknu breytingu. Mér fannst einmitt sérstaklega undarlegt að þingið skyldi ekki afgreiða sambærilega lagabreytingartillögu mína síðasta vor í ljósi þess að kallað er eftir því út frá hagsmunum barna. Það er lagatæknilegt en nauðsynlegt að lagagrundvöllur sé fyrir miðlun persónuupplýsinga um börn.

Svo spyr hv. þingmaður mig hvað mér finnist um að veita barnaverndaryfirvöldum svigrúm til að leggja mat á það hvar hagsmunum barnsins sé best fyrir komið, hvar í heiminum sem það er. Ég verð að segja að ég tel ekki að barnaverndaryfirvöld hafi þá yfirsýn sem til þarf og það sé eðlilegt að fela þeim ábyrgð í þeim efnum að leggja mat á aðstæður barna í öðrum löndum. Aðrar stofnanir eru í miklu betri færum til að gera það og hafa lagaskyldu til að gera það. Það yrði grundvallarbreyting á starfsemi barnaverndarnefnda ef fela ætti þeim slíkt hlutverk.