149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra nefndi að þótt umsögn komi frá stofnun eins og Rauða krossinum sé það ekki sjálfkrafa þannig að þær tillögur verði settar inn í nýja útgáfa af frumvarpi og ég skil það mætavel. Ég hef lagt fram mál, verið framsögumaður á málum og fengið umsagnir sem ég hef þurft að taka afstöðu til og verið ósammála og þess vegna ekki viljað breyta mínum málum eða þeim sem ég er framsögumaður fyrir. Ég skil það mætavel, enda ekki mjög flókinn punktur.

Hins vegar velti ég svolítið fyrir mér pólitískum metnaði hæstv. ráðherra og bið ráðherrann um að deila honum með okkur.

Það er varla umdeilt að Rauði krossinn hafi mestu reynsluna í þeim málaflokki. Ég á mjög erfitt með að sjá það. Sömuleiðis eru lög um útlendinga til þess að kveða á um réttarstöðu og tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins. Markmið þeirra er að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð o.s.frv., markmið sem löggjafinn hefur tilgreint og við hljótum öll að vera sammála. Þegar það berst umsögn með svo hógværum og hófsömum tillögum sem uppfylla þau markmið jafnvel betur en greinin í frumvarpinu sjálfu, er þá einhver ástæða til að nýta það ekki ef markmiðið er að hafa lögin mannúðleg og skilvirk og góð þannig að þau taki fyrir áhyggjur af óhóflegum þrengingum gagnvart réttindum þessa fólks, sér í lagi eins og í a-lið 6. gr. frumvarpsins þar sem kemur fram mjög hófleg og einföld skýring sem er algerlega í samræmi við tilgang og markmið laganna? Hefur hæstv. ráðherra bara ekki áhuga á því að heyra tillögur frá reynslumestu og þekkingarmestu stofnun landsins (Forseti hringir.) í málaflokknum þegar kemur að þessu?