149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætisíþrótt að þræta um hverjir eru mestu sérfræðingar hér á landi. Ég hef miklar mætur á Rauða krossinum sem veitir verulega mikla og vandaða þjónustu til hælisleitenda, bæði upp á eigin spýtur og eftir samningum við stjórnvöld. Það hefur varðað miklu fyrir hælisleitendur að hafa getað gengið að þeirri þjónustu Rauða krossins.

Rauði krossinn á Íslandi er hins vegar í þeirri stöðu, og öll störf hans því marki brennd, að þetta er nýtt verkefni fyrir honum, rétt eins og á við í öðrum störfum hér á landi. Þar starfar fólk eins og annars staðar í ráðuneytum og aðrir sérfræðingar sem hafa verið að fóta sig í hinum nýja heimi sem í rauninni má segja að sé að einhverju leyti nýtt réttarsvið, hælisleitendaréttarsvið eða reglur er lúta að því.

Ég ætla ekki að leggja mat á hverjir eru mestu sérfræðingarnir þar en ég get alveg fullyrt að starfsfólk Útlendingastofnunar, starfsfólk kærunefndarinnar, starfsfólk í dómsmálaráðuneytinu, hefur öðlast alveg gríðarlega yfirgripsmikla fræðilega þekkingu á lagareglum er lúta að því úti um allan heim og hafa átt í mjög miklu og margvíslegu og góðu samstarfi við alþjóðastofnanir og sérfræðinga í stjórnkerfinu úti um allan heim. Ég er ekki viss um að hægt sé að fullyrða að starfsfólk Rauða krossins hafi meiri þekkingu en það fólk.

Vissulega er það þannig að Rauði krossinn hefur á að skipa mjög góðu fólki. Innan veggja Rauða krossins greinir menn hins vegar líka á um túlkun á lagareglum, alveg eins og annars staðar, eins og hefur verið milli kærunefndar og Útlendingastofnunar. (Forseti hringir.) En mestu máli skiptir að samstarf og samtal sé á milli allra þessara stofnana (Forseti hringir.) og það er svo sannarlega af hálfu dómsmálaráðuneytisins sem hefur forgöngu um (Forseti hringir.) samtal við allar þær stofnanir og (Forseti hringir.) reglulegt samráð, eins og ég hef margoft sagt, a.m.k. (Forseti hringir.) einu sinni í mánuði.