149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ósanngjarnt hjá hv. þingmanni að halda því fram að einhver mótþrói sé gagnvart Rauða krossinum. Rauði krossinn hefur lagt til margar og margvíslegar tillögur í lagaumgjörðinni og löggjafinn hefur tekið tillit til margra þeirra, eins hvað varðar reglusetningar og annað. Það er því ekki um neinn mótþróa að ræða. Það er hins vegar þannig að menn kann líka að greina á um túlkun á ýmsum alþjóðareglum. Í ábendingum Rauða krossins í málinu er lutu að einu tilteknu atriði og túlkun í alþjóðareglum, alþjóðatilskipun, sem ég vek athygli á að Ísland er ekki sérstaklega bundið við, málsmeðferðartilskipun sem Rauði krossinn vitnaði í umsögn sinni, virðist Rauði krossinn oftúlka ákvæði þeirra alþjóðlegu samþykkta.

Ráðuneytinu er ekki stætt á öðru en að leiðrétta slíkan misskilning. Það hefur verið gert og ekki verið fallist á ábendingar að því leyti.

Hvað a-lið 6. gr. frumvarpsins varðar, sem hv. þingmanni er hugleikinn, var það skoðað sérstaklega. Það var mat ráðuneytisins eftir ítarlega skoðun að mikilvægt væri að ákvæðið fengi að standa óbreytt eins og það er í frumvarpinu. Í framkvæmdinni hafi reynt á hvað verði um dvalarleyfisumsóknir við endanlega ákvörðun um brottvísun og hafa þurfi í huga að brottvísunum fylgir endurkomubann um Schengen-svæðið.

Það kemur (Forseti hringir.) ekki fram í lögunum hvað verður um slíkar umsóknir þannig að það er talið í hæsta máta eðlilegt (Forseti hringir.) að þær falli úr gildi líkt og útgefin dvalarleyfi, sem er eitt grunnskilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis, (Forseti hringir.) að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geti því að umsækjanda verði meinuð landganga hér á landi. Það eru því lagatæknilegar ástæður fyrir því að menn hafa ekki getað fallist á tillögur Rauða krossins.