149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:22]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get nefnt það hér að ég kjósi að láta sem vind um eyru þjóta ummæli hv. þingmanns um að hún ætli ekki að hreyfa við því sem hún kallar söguskoðun mína hér í framsöguræðu. Ég er nú samt mjög forvitin að vita hvað það er sem hún kallar söguskoðun í þessari framsöguræðu og hvet hana til að koma fram með það, ef hún telur að það sé einhvers konar söguskýring, eins og mér heyrðist á henni, sem hún fellst ekki á.

En hvað varðar þau efnislegu atriði sem hún nefnir, t.d. um lögráðamenn, barnaverndarnefndir, kennara eða annað, kom það skýrt fram af minni hálfu strax sumarið 2017 að ég teldi einboðið að endurskoða þyrfti þau ákvæði sem kveða sérstaklega á um óflekkað mannorð sem skilyrði fyrir embættum eða störfum. Ef ekkert er kveðið á um lögráðamenn í frumvarpinu er það vegna þess að óflekkað mannorð er ekki skilyrði og hefur aldrei verið skilyrði fyrir því að menn verði lögráðamenn. Það kann að vera að full ástæða sé til að endurskoða ákvæði um lögráðamenn og alls konar fleiri stéttir, kennara, heilbrigðisstarfsfólk og annað, en það verður samt ekki gert í þessu sambandi, ekki í frumvarpi sem er ætlað að kveða í kútinn fyrirbærið uppreist æru.

Ég held alveg tvímælalaust að umræðan sem verður hér við þinglega meðferð og frumvarpið, nái það fram að ganga, hvetji stjórnvöld, sem undir það heyra, og einnig fagfélög o.fl. til að skoða í sínum ranni hvort ástæða sé til að skerpa aðeins á skilyrðum til starfa. En menn verða auðvitað að hafa það í huga líka að atvinnuréttindi manna eru mannréttindi og ekki hægt að skerða þau bara handahófskennt eða (Forseti hringir.) bara af því að mönnum finnst eitthvað eða slengja fram einhvers konar skerðingu á þeim.