149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú get ég kannski ekki tjáð mig um hvert einasta starf í landinu en barnaverndarnefndir heyra undir velferðarráðuneytið. Dómsmálaráðuneytið sendi tilkynningu og ósk um umsögn jafnvel tillögu til breytinga á þeim störfum sem undir það ráðuneytið heyra alveg eins og ráðuneytið gerði við öll ráðuneyti, en fékk, eins og ég nefndi hér í framsögu, engin viðbrögð við ósk um umsóknir um lagafrumvarpið eins og það varð og heldur ekki ósk um að menn kæmu með tillögur í þessum efnum. Þau svör sem bárust lutu að því að menn óskuðu eftir því að dómsmálaráðuneytið tæki forystu í þessu og legði einhvers konar línur.

Hvað barnaverndarnefndir áhrærir geri ég ráð fyrir því að menn þurfi, eins og á við um önnur viðkvæm störf er lúta að börnum, að hafa, og kallað sé eftir því, hreint sakavottorð. Hv. þingmaður hristir hausinn og það kann að vera rétt að það sé ekki gert. En það tel ég að þurfi að vera í tilviki barnaverndarnefnda, einhver hæfisskilyrði. Ég trúi ekki öðru en að það séu einhver hæfisskilyrði þar, þótt ég þekki ekki þá löggjöf til (Gripið fram í.)hlítar.

En ég tek undir það að þetta þarf að skoða. Ég er hins vegar ekki viss um að það eigi endilega heima í þessu frumvarpi sem er afmarkað við það að afnema uppreist æru úr lögum og þetta skilyrði um óflekkað mannorð, sem menn hafa verið að hnjóta um um áraraðir. Ég held að það sé miklu skilvirkara að afgreiða þetta sér en ég efast ekki um að það mun verða hvatning á ýmsum vettvangi til að taka til endurskoðunar hæfisskilyrði ýmissa starfsstétta. Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða þetta sérstaklega með umsagnaraðilum.