149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við höfum til umræðu frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru. Það má segja að að vissu leyti sé þetta frumvarp rökrétt framhald af því máli sem sprengdi síðustu ríkisstjórn vegna tregðu til að svara brotaþolum kynferðisbrota um hvernig uppreist æru ákveðinna brotamanna hefði borið að og vegna þess að enginn vildi taka ábyrgð á þeirri framkvæmd að þessum einstaklingum hefði verið veitt uppreist æru. Þá er nú ærið tilefni til að breyta lögunum þannig að það verði alltént skýrara hver beri ábyrgð á því hvernig og hvenær fólk endurheimti borgaraleg réttindi sín eftir að hafa brotið á einstaklingum, sérstaklega þegar kemur að atvinnuréttindum.

Ég man ágætlega þá umræðu sem átti sér stað á þessum tíma. Stór hluti hennar sneri að því að við hefðum mjög gamaldags viðhorfs til þess hvenær takmarka ætti aðgengi fólks að ábyrgðarstöðum og hvað teldust ábyrgðarstöður, þess verðar að það kæmi fram í lögum að viðkomandi einstaklingar sem gegndu viðkomandi störfum mættu ekki hafa brotið af sér á einn eða annan hátt. Þetta gamaldags viðhorf varðaði það mestmegnis að þessi störf fólu það í sér að sýsla með peninga ríkisins en sneru ekki að öðrum ábyrgðarstöðum eins og að vera kennari eða gegna öðrum störfum sem snúa að ábyrgð gagnvart börnum eða öðrum sem eru í valdaminni stöðu gagnvart einhverjum sem hefur völd yfir þeim. Þess vegna nefndi ég í andsvari mínu áðan lögráðamenn í lögræðislögum sem heyra einmitt undir dómsmálaráðuneytið. Þar er komið inn á að skilyrði fyrir því að vera lögráðamaður sé að viðkomandi megi ekki hafa gerst sekur um hegningarlagabrot samkvæmt XXII. kafla, sem eru kynferðisbrot. Þetta er reyndar nýkomið inn í lögin.

Þar er t.d. ekkert talað um fjársvikabrot eða neitt annað slíkt gagnvart einstaklingi sem mun svo taka að sér fjárræði yfir þeim lögræðissvipta sem honum er falið að vera lögráðamaður yfir. Ég hefði talið að það væri eðlilegt í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað á þeim tíma að þetta hefði t.d. líka verið skoðað.

Ég benti á annað atriði sem mér finnst varhugavert við þetta frumvarp, breytingu á kjörgengi til sveitarstjórnar- og alþingiskosninga. Til að vera kjörgengir til alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga þurftu viðkomandi einstaklingar að hafa óflekkað mannorð en þessu er núna breytt þannig að viðkomandi þurfi að hafa afplánað sinn dóm. Það er svo látið í hendur kjósenda að ákvarða hvort það sé nægjanlegt til að fá að gegna stöðu sveitarstjórnarfulltrúa eða alþingismanns.

Þetta hefur víðtækar afleiðingar vegna þess að t.d. það að vera kjörgengur í barnaverndarnefnd sætir sömu skilyrðum og kjörgengi til sveitarstjórna. Ég velti fyrir mér hvort einstaklingar sem sækjast eftir setu í barnaverndarnefnd séu kjörgengir í slíkt embætti þrátt fyrir að hafa einungis nýlega lokið afplánun, jafnvel fyrir brot gegn börnum. Þetta er nokkuð sem mér finnst að hefði mátt skoða, sérstaklega ef söguskoðun hæstv. ráðherra reynist rétt og búið sé að vinna að endurskoðun á þessum málaflokki síðan í maí í fyrra, sem ég á enn mjög erfitt með að skilja, en látum gott heita.

Þetta er eitt af nokkrum atriðum sem ég rek augun í. Ég tek líka undir orð hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur hvað varðar þessi sérstöku skilyrði gagnvart lögmönnum. Mér finnst tilefni til að skoða hvort þetta sé rétta aðferðin. Við sáum í þeirri atburðarás sem leiddi til falls síðustu ríkisstjórnar, sáum í framkvæmdinni sem hafði verið notuð gagnvart uppreisn æru, sérstaklega þessa manns, Roberts Downeys, sem Hæstiréttur notaðist við þegar hann dæmdi honum starfsréttindi sín aftur, að ekkert sérstakt mat fór fram á því hvort hann væri hæfur til að gegna lögmannsstörfum þrátt fyrir að það væri alveg hægt að leiða af löggjöfinni að það mætti og ætti að fara fram mat á því hvort það teljist varhugavert að lögmaður sem hefur brotið gegn fjórum unglingsstúlkum eða fimm fái lögmannsréttindi sín á ný. Þarna hefði alveg getað farið fram mat á því og ég fæ ekki séð hvernig þessi löggjöf tryggir að þetta mat fari fram á einhverjum faglegum forsendum, sérstaklega gagnvart dómstólunum sem stóluðu á mjög gamalt fordæmi hjá öðrum lögmanni sem hafði drepið konuna sína, farið í afplánun og svo sótt lögmannsréttindi sín aftur einhverjum árum síðar. Þar sem ekki þótti varhugavert að veita þeim manni lögmannsréttindi sín aftur þótti ekki varhugavert að veita Robert Downey sín lögmannsréttindi aftur.

Ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra í andsvari um frumvarp sem ráðherra hyggst leggja fram á þessu þingi um að hætt skuli að birta nöfn dæmdra kynferðisbrotamanna á vefnum. Ég velti þessu upp vegna þess að nú á að breyta kjörgengi þannig að viðkomandi einstaklingar verði kjörgengir um leið og þeir eru búnir að afplána sinn dóm, sama hvert brotið er. Hvernig eiga kjósendur að vera upplýstir um að t.d. sé um kynferðisbrotamenn að ræða ef nöfn þeirra eru ekki birt? Þarf þá ekki að taka einhvers konar sérstakt tillit til þess í þessu samhengi? Þetta er nokkuð sem mér finnst skipta töluverðu máli.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt neitt miklu meira nema til að koma að því sem ég taldi upp áðan sem söguskýringu hæstv. dómsmálaráðherra á aðdraganda þessarar lagasetningar. Um það vil ég segja að það er hið sama með söguskýringuna í þessu frumvarpi, hér er sneitt algerlega fram hjá hluta þeirra sem áttu stærstan þátt í því að þessi mál voru tekin til gagngerrar endurskoðunar og það er fólkið í #höfumhátt, brotaþolar Roberts Downeys sem stigu fram og kröfðust þess að fá upplýsingar, kröfðust þess að hér yrðu breytingar svo annað þessu líkt kæmi aldrei fyrir aftur, þ.e. að maður sem hefði brotið gegn fimm unglingsstúlkum fengi uppreist æru og lögmannsréttindi án þess að nokkur gengist við því að bera ábyrgð á því. Á þær er ekki minnst í greinargerð með þessu frumvarpi heldur er látið sem svo að hæstaréttardómurinn sem veitti Robert Downey lögmannsréttindi sín á ný hafi orðið valdur að umræðu sem einhvern veginn sé orsök þessa frumvarps. Þó voru það einstaklingar í hópnum sem kallaði sig #höfumhátt sem héldu þessu máli á lífi, sem ýttu á eftir því að hér yrðu breytingar og sem komu því til leiðar að hluta að ríkisstjórnarsamstarf Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins sprakk í loft upp eins og frægt er orðið.

Þetta er eitt af því sem mér finnst athugavert við söguskoðun hæstv. dómsmálaráðherra og þá greinargerð sem í þessu frumvarpi er að finna, þeirra þátt hefði mátt vera að finna í eins og einni setningu í þessari greinargerð sem og í máli hæstv. dómsmálaráðherra.